Kurteisi að íhuga framboð

Þóra Arnórsdóttir segist munu ákveða hvort hún bjóði sig fram …
Þóra Arnórsdóttir segist munu ákveða hvort hún bjóði sig fram til forseta fyrir vikulok. Kristinn Ingvarsson

„Í stuttu máli: Já.“ seg­ir Þóra Arn­órs­dótt­ir sjón­varps­kona og aðstoðarrit­stjóri Kast­ljóss­ins þegar hún er spurð hvort hún velti fyr­ir sér af al­vöru að bjóða sig fram til embætt­is for­seta Íslands.

Ný könn­un Capacent Gallup leiddi í ljós að flest­ir þeirra sem vilja fá nýj­an for­seta á Bessa­stöðum myndu kjósa Þóru í embættið.

Tek­inn var sam­an listi yfir þá sem helst hafa verið nefnd­ir í sam­hengi við fram­boð til kosn­ing­anna að und­an­förnu. Þriðjung­ur þátt­tak­enda sögðust myndu kjósa Ólaf Ragn­ar til áfram­hald­andi setu á Bessa­stöðum, en næst­flest­ir eða fjór­tán pró­sent aðspurðra vildu sjá Þóru. Neðar röðuðust svo Elín Hirst og Sal­vör Nor­dal með um sjö pró­senta fylgi.

„Ég hef fundið fyr­ir mikl­um stuðningi, hef fengið heil­an hell­ing af bréf­um og sím­töl­um og mikla hvatn­ingu héðan og þaðan,“ seg­ir Þóra. „Þessi könn­un sýndi mér fram á að stuðning­ur­inn er víðtæk­ur. Mér finnst kurt­eisi gagn­vart öllu þessu fólki að íhuga fram­boð og það ætla ég að gera,“bæt­ir hún við.

„Þetta er auðvitað ekki eitt­hvað sem maður ger­ir einn, ég á stóra fjöl­skyldu og eins og menn hafa kannski giskað á þá var þetta ekki bein­lín­is á áætl­un­inni,“ seg­ir Þóra, en hún og eig­inmaður henn­ar, Svavar Hall­dórs­son eiga von á sínu þriðja barni sam­an eft­ir sex vik­ur. Þá verða alls 6 börn á heim­il­inu, en Svavar á þrjár dæt­ur úr fyrra sam­bandi og sam­an eiga hann og Þóra tvö börn fyr­ir, þriggja og sex ára. „En þótt þetta hafi ekki verið á plan­inu kem­ur á móti að maður get­ur ekki lifað líf­inu eft­ir áætl­un­um.“

Hún seg­ir að vel ætti að vera hægt að tvinna sam­an fjöl­skyldu­líf og for­seta­embættið. „Við höf­um tvinnað sman fjöl­skyldu­líf og at­vinnu hingað til, við erum bæði í mjög anna­söm­um og krefj­andi störf­um og fyr­ir utan það myndi Svavar vænt­an­lega láta af störf­um og vera heima­vinn­andi, að minnsta kosti til að byrja með. Ég er viss um að það yrði ekki erfiðara en það er núna,“ seg­ir Þóra. „Við vit­um það að á Íslandi vinna for­eldr­ar mjög mikið af því að það er dýrt að fram­fleyta stórri fjöl­skyldu.“

„Sleepo­ver“ á Bessa­stöðum

Hún seg­ir að það þurfi að ráðfæra sig vel við fjöl­skyld­una áður en ákvörðun af þessu tagi sé tek­in. En hvernig skyldi eig­in­manni og börn­um lít­ast á þessa hug­mynd? „Maður­inn minn seg­ist ein­fald­lega standa með mér í hverju sem er, og litlu krakk­arn­ir eru voðal­ega lítið að velta þessu fyr­ir sér. Þau eru vön því að fólk viti hverj­ir for­eldr­ar þeirra eru og þeim finnst til dæm­is ekk­ert merki­legt við að vera í sjón­varp­inu. Ég veit ekki hvort þeim þætti það eitt­hvað merki­legt að vera for­seti. Stóru stelp­urn­ar eru líka bara já­kvæðar. Þær segja bara „Já, af hverju ekki? Vera með sleepo­ver á Bessa­stöðum, væri það ekki bara fjör?“ seg­ir Þóra og hlær. „Þetta er þó ekki komið það langt að við séum búin að und­ir­búa börn­in að ein­hverju ráði.“

Þóra seg­ir að á meðan hún sé ekki búin að taka ákvörðun þá sé hún fréttamaður sem hafi ekki op­in­bera skoðun á for­seta­embætt­inu.

Björn Bjarna­son, fyrr­ver­andi ráðherra, var harðorður í blogg­færslu á dög­un­um þegar hann kom á fram­færi þeirri skoðun sinni að Þóra „kynni ef til vill að hafa lokið ferli sín­um á sjón­varpi rík­is­ins með því að ljá máls á fram­boði“. Um þessi um­mæli seg­ir Þóra „Björn Bjarna­son er oft mjög skemmti­leg­ur og ekk­ert meira um það að segja. Mér fund­ust um­mæl­in og viðbrögðin sem hann fékk við þeim eig­in­lega bara svo­lítið skemmti­leg að sjá. Ég get ekki séð teng­ing­una þarna á milli, en það verður hver að fá að hafa sína skoðun.“

Gef­ur sér vik­una til að ákveða

Björn og fleiri hafa látið í veðri vaka að Sam­fylk­ing­in standi á ein­hvern hátt á bak við fram­boð Þóru. „Ég skil það satt að segja ekki, ég held að það sé fyrst og fremst af þörf fyr­ir að taka fólk og flokka það í box, ég hef aldrei starfað fyr­ir Sam­fylk­ing­una. Ég er búin að vinna í fjöl­miðlum í 15 ár og þess­ar kenn­ing­ar finn­ast mér eig­in­lega meira hlægi­leg­ar en hitt,“ seg­ir Þóra. „Ég var í Röskvu og Alþýðuflokkn­um þegar ég var tví­tug, það er eina teng­ing­in sem hægt er að finna,“ seg­ir Þóra.

Hún seg­ist þó skilja þörf­ina fyr­ir að flokka fólk í póli­tíska hópa, en hún seg­ir að í þessu sé vel mögu­legt að vera ópóli­tísk­ur.

Aðspurð hvort þetta boði skipti um starfs­vett­vang í henn­ar lífi seg­ir hún svo ekki vera. „Fari svo að ég bjóði mig ekki fram mun ég halda því áfram sem ég hef verið að gera. Ég er í mjög skemmti­legu starfi og það er kannski ein­mitt þess vegna sem ég verð að hugsa það vel og vand­lega hvort ég vilji ein­hverju breyta í því.“

Aðspurð hvenær hún kom­ist að niður­stöðu seg­ir Þóra „Það þýðir ekki að draga það allt of lengi. Ég býst við að gefa mér vik­una í þetta, eða þar um bil.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert