Ástþór vill fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur

Ástþór Magnússon tilkynnti forsetaframboð í síðasta mánuði.
Ástþór Magnússon tilkynnti forsetaframboð í síðasta mánuði. mbl.is/Golli

Ástþór Magnússon, sem boðið hefur sig fram til embættis forseta Íslands, vill fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum frá því sem nú er.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér í dag. „Í aðdraganda forsetakosninga árið 1996 talaði ég um að færa valdið í auknum mæli til fólksins. Fyrstur manna sagðist ég vilja hefja slíka lýðræðisþróun með því að virkja málskotsrétt forseta í öllum meiriháttar deilumálum. Svokallaðir álitsgjafar voru þá dregnir fram í ríkisfjölmiðlunum til að segja að þetta væri ekki hægt því engin hefð væri fyrir slíku inngripi forseta.

Sitjandi forseti notaði málskotsréttinn 8 árum síðar þegar kostunaraðilar framboðs hans (eigendur Norðurljósa-365 miðla) vildu með öllum ráðum stöðva fjölmiðlafrumvarpið. Stór mál m.a. Kárahnjúkar, öryrkjamálið og fyrstu Icesave lögin fóru hinsvegar í gegn með samþykki forseta. Það var ekki fyrr en eftir 15 ár í embætti þegar skoðanakannanir sýndu vaxandi óvinsældir forsetans að hann greip til þess ráðs að nota aftur málskotsréttinn. Ég nefni þetta hér til að fólk átti sig betur á því að sitjandi forseti hefur nýtt málskotsréttinn m.a. út frá sérhagsmunalegum sjónarmiðum.

Ég vil að þjóðaratkvæðagreiðslur verði eðlilegur hlutur í lýðræðisþróun framtíðarinnar frekar en dramatískar leiksýningar. Ég hef bent á leiðir til að lækka kostnað við kosningar m.a. með því að nota hraðbankakerfið sem kjörklefa samhliða sérlausnum fyrir þá sem ekki komast í hraðbanka.“

Nánar er hægt að fræðast um stefnumál Ástþórs á www.forsetakosningar.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert