„Erum að ganga frá lausu endunum“

Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur.
Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Menn verða svolítið að lesa á milli línanna. Við erum rétt að ganga eins og maður segir frá lausu endunum,“ segir Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, í samtali við mbl.is aðspurður um mögulegt framboð hans til embættis forseta Íslands en hann sendi frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem kom fram að hann myndi tilkynna ákvörðun sína á blaðamannafundi á sumardaginn fyrsta.

„Þetta er náttúrulega eins og allir vita auðvitað bæði flókin persónuleg ákvörðun fyrir okkur hjónin og svo náttúrulega börnin og barnabörnin. Síðan er góður hópur af ráðgjöfum og stuðningsfólki sem við höfum verið að tala við og yfir höfuð bara lista upp fyrir okkur allt sem þarf að gera bæði áður en þessi ákvörðun er tilkynnt og eins það sem gerist strax á eftir, fjársöfnun og undirskriftasöfnun og svo framvegis,“ segir Ari aðspurður um það hvort undirbúningur að ákvörðuninni hafi staðið yfir undanfarnar vikur en fjallað var um mögulegt framboð Ara í fjölmiðlum í byrjun mars og sagðist hann þá vera að íhuga framboð.

„Við höfum ekkert verið að flýta okkur að þessu. Fundist óþarfi að vera með eitthvað óðagot eða að vera í einhverri samkeppni við aðra hugsanlega meðframbjóðendur. Það er það langur tími fram að forsetakosningunum,“ segir Ari og bendir á að það verði væntanlega ekki endanlega ljóst fyrr en í lok maí hverjir verða löglegir frambjóðendur og hverjir ekki en þá rennur út frestur til þess að skila inn framboðum og nægjanlegum fjölda undirskrifta meðmælenda.

„Ég er allavega ánægður með það að það verði nokkrir frambjóðendur en ekki bara einhver einn sjálfkjörinn eða einhverjir tveir í framboði,“ segir Ari og bætir við að fólk hafi auðvitað ólíkar hugmyndir um það hvernig forseta það vilji og því sé jákvætt að því standi til boða fjölbreyttir kostir í þeim efnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert