„Í dag er sumardagurinn fyrsti og þetta er dagur bjartsýni. Það hentar okkur mjög vel vegna þess að við erum ákaflega bjartsýn í dag,“ sagði Ari Trausti Guðmundsson jarðvísindamaður þegar hann tilkynnti um framboð sitt til embættis forseta Íslands á blaðamannafundi sem haldinn var á heimili hans.
Ari Trausti og eiginkona hans, María G. Baldvinsdóttir, voru umkringd vinum og vandamönnum á blaðamannafundinum og sagðist Ari Trausti finna fyrir miklum stuðningi við framboð sitt til embættis.
Nái hann kjöri ætlar hann að leggja áherslu á að framkalla umræður í þjóðfélaginu, spyrja brýnna spurninga og finna lausnir á deilumálum. „Það er ósætti [í þjóðfélaginu] og það eru hagsmunahópar sem takast á. Það er kannski ekki hægt að sætta þá á næstu árum en það er hægt að finna lausnir,“ segir Ari Trausti.
„Í fyrsta lagi þá langar mig til þess að gegna þessu embætti. Ég held að ég geti gert samfélaginu gagn og talið kjark í þá sem það þurfa og beint samfélaginu á réttari brautir með gerðum mínum,“ sagði Ari Trausti um helstu ástæður þess að hann hefur nú ákveðið að gefa kost á sér í komandi forsetakosningum.
Býr vel að þekkingu og reynslu
Ari Trausti hefur unnið ýmis störf í gegnum tíðina, m.a. sem grunnskólakennari, leiðsögumaður og dagskrárgerðarmaður fyrir bæði Ríkisútvarpið- og sjónvarpið auk þess að vera veðurfréttamaður í sjónvarpi hjá Stöð 2. Ennfremur er hann víðförull og talar fimm tungumál. „Þessi reynsla, þ.e.a.s. þessi þekking sem ég tel mig hafa, búa til rými í mínum huga fyrir frambjóðanda af þessu tagi,“ segir Ari Trausti.
„Ég get líka nefnt að það sakar ekki að það sé örlítil skáldataug í þessu öllu saman [...] Ég held að það sé gott að hafa skáld á Bessastöðum,“ sagði Ari Trausti en hann hefur fengist við ritstörf og skrifað fjölda bóka um náttúru og jarðfræði Íslands. Framboð hans er knúið áfram af vinum og vandamönnum og því óháð öllum stjórnmála- og hagsmunasamtökum.
„Við María erum vön að takast á við erfið verkefni,“ segir Ari Trausti og vísar til fyrri starfa þeirra hjóna.
Kosningastjóri hans er Lára Janusdóttir og getur fólk nú heimsótt heimasíðu framboðsins og m.a. kynnt sér helstu málefni og stefnur.
Fjölbreytt viðfangsefni forseta
„Hvað viljum við? -Við viljum aukna bjartsýni og jafnrétti. Við viljum að mannúð og heiðarleiki sé í fyrirrúmi og við viljum sjá sanngirni og ábyrgð í verki. Forseti Íslands er þjóðkjörinn embættismaður sem heldur trúnaði við kjósendur sína, óháð stjórnmálaskoðunum þeirra, og leitast við að vinna traust flestra landsmanna. Forseti getur stuðlað að því sem við viljum með orðum og þeim gerðum sem að ákvæði stjórnarskrár lýsa í heild sinni. Viðfangsefni forsetans eru mörg og misflókin. Hann stuðlar að lýðræðislegum lausnum með sem mestum stuðningi í samfélaginu. Hann sameinar í störfum sínum almenn stjórnmál í víðum skilningi, önnur samfélagsmál, siðræna umræðu og sendistörf sem þjóðarfulltrúi í útlöndum. Hann eflir samstarf við aðrar þjóðir,“ segir í inngangi að stefnuskrá Ara Trausta Guðmundssonar forsetaframbjóðanda.
Áherslumál Ara Trausta
- samræður milli þjóðfélagshópa um hag og framtíð samfélags okkar
- skilvirkt, fjölbreytt og einstaklingsmiðað menntakerfi
- atvinnu og menningarstarf ungs fólks
- styrka samhjálp handa öllum til heilbrigðs lífs
- sérþekkingu vísindanna og nýsköpun
- jafnrétti og mannréttindi á grunni Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og
fleiri samþykkta
- aukið viðnám gegn náttúruvá og áhrifum hlýnunar andrúmsloftsins
- blómlega landsbyggð og styrk bæjarfélög
- sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda
- kynningu heima og heiman á stöðu og eðli íslenskrar náttúru
- kynningu heima og heiman á íslenskri og alþjóðlegri menningu
- samræður sem flestra um framtíð veraldarinnar, frið, frelsi og lýðræði
- öflugt samstarf Norðurlanda
- jafnræði þjóða og allra trúarbragða og lífskoðana
- aukin samskipti við þróunarlönd
- sérstöðu Íslands í málefnum heimskautasvæða
- lýðræðislegar ákvarðanir um helstu samskipti við aðrar þjóðir