„Ég skal alveg viðurkenna að þetta kemur aðeins á óvart en ég er bara full þakklætis,“ segir Þóra Arnórsdóttir í samtali við mbl.is en eins og komið hefur fram sýndi skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem birt var í dag hana með mun meira fylgi vegna forsetakosninganna í sumar en sitjandi forseta Ólaf Ragnar Grímsson.
Samkvæmt könnuninni fengi Þóra 49% atkvæða ef aðeins er miðað við þá sem nefndu einhvern frambjóðanda á meðan Ólafur Ragnar mældist með 34,8%. Næstur kom Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur með 11,5%.
„Það eru samt sem áður alveg tveir mánuðir fram að kosningum þannig að við erum alveg róleg. En við erum einfaldlega óskaplega þakklát og tökum þessu sem mikilli hvatningu,“ segir Þóra og bætir því við að könnunin sé gott veganesti í kosningabaráttuna.