Í dag, miðvikudaginn 9. maí, verður sendur út í Bandaríkjunum sjónvarpsþáttur Mörthu Stewart þar sem Dorrit Moussaieff forsetafrú stendur fyrir margvíslegri Íslandskynningu. Fjallað er um ferðaþjónustu, hönnun, hollustu, íslenska hestinn og mat, m.a. þorskalifur, fisk og íslenskt súkkulaði.
Þættirnir, sem eru afar vinsælir í Bandaríkjunum, eru einnig sýndir í yfir 50 löndum. Þátturinn í dag er sá fyrsti sem helgaður er einu landi. Kynningin á Íslandi var unnin í samvinnu við Hlyn Guðjónsson, ræðismann Íslands í New York og viðskiptafulltrúa í Bandaríkjunum, og fjölmarga aðra íslenska aðila, m.a. Gunnar Karl Gíslason, matreiðslumann á veitingastaðnum Dill í Norræna húsinu, sem kemur fram í þættinum. Þá ríða Dorrit Moussaieff og Martha Stewart á tveimur íslenskum gæðingum inn í sjónvarpssalinn. Hestarnir eru eign bandarískrar ræktunarkonu sem sérhæfir sig í íslenskum hestum og lýsir hún eiginleikum þeirra.
Þættir Mörthu Stewart hafa um árabil notið mikilla vinsælda. Fjalla þeir einkum um gæðavörur og ráðleggingar um hollustu og betri lífshætti. Milljónir áhorfenda um allan heim fylgjast með þeim reglulega, segir í tilkynningu frá forsetaembættinu.