„Ég er að byrja kosningabaráttuna“

„Ég er að byrja kosningabaráttuna,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í útvarpsþætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í morgun. Á morgun munu forsetahjónin hefja fundaferð sína um landið, sem þau kalla Samræðu um allt land.

Opnuð hefur verið vefsíðan Ólafur og Dorrit.is til að kynna framboð forsetans. Að auki verður kosningaskrifstofa hans opnuð á Laugavegi 88 eftir hádegi í dag. Forsetinn hyggst nýta sér möguleika ýmissa samfélagsmiðla í kosningabaráttunni, til dæmis Facebook, en hjónin eru bæði komin með síður þar.

Fundaferðin hefst í Grindavík þar sem forsetahjónunum verður boðið í afmæliskaffi, en Ólafur á afmæli á morgun og einnig er þá brúðkaupsafmæli hjónanna.

Hann sagði að forsetinn væri ekki bara veislustjóri, eins og sumir virtust halda, heldur væri þetta annasamt starf. „Þetta eru gríðarlegar annir, samfellt starf flestar helgar árið um kring,“ sagði Ólafur.

Spurður að því hvort hann hefði farið offari í að mæra íslensku bankana sagði hann bankana vissulega hafa farið illa að ráði sínu. „Ég studdi uppbyggingu þeirra rétt eins og aðrir. Ég gerði þau mistök að taka mark á alþjóðlegum matsfyrirtækjum,“ sagði Ólafur en sagðist jafnframt telja að forseta Íslands bæri að styðja við íslenskt atvinnu- og athafnalíf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert