Forseti gagnrýnir fréttir RÚV

Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaief.
Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaief. Eggert Jóhannesson

„Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum vegna fjölmiðla. Þessar kosningar eru prófsteinn á fjölmiðlana. Þetta eru fyrstu alvöru kosningarnar í þessu nýja fjölmiðlaumhverfi,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í útvarpsþættinum Sprengisandur í morgun.

Hann sagði ýmsa fjölmiðla hafa unnið markvisst gegn sér og nefndi dæmi um að þeir hefðu lagt sig í líma við að rifja upp neikvæð skrif um hann og lofað aðra frambjóðendur. Hann nefndi ríkissjónvarpið sérstaklega í þessu sambandi og sagði fréttastofuna þar hafa misnotað stöðu sína til að styðja framboð Þóru Arnórsdóttur.

Hann nefndi dæmi um fréttaflutning sambýlismanns Þóru, Svavars Halldórssonar fréttamanns, af skoðanakönnun samtakanna Betri kostur á Bessastaði, en þau samtök styðja framboð Þóru.

„Fréttin var sérhönnuð til að sá efasemdum í minn garð, þetta fékk hann að gera á sama tíma og þau (Svavar og Þóra) höfðu samþykkt að fylgi hennar hefði verið mælt,“ sagði Ólafur Ragnar. „Hann (Svavar) var með fleiri fréttir til að sá tortryggni í minn garð eftir að hún hafði lýst yfir áhuga á framboði. Þetta finnst mér endurspegla ákveðna blindu í fjölmiðlum,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Ástþór hefur engan maka til að reka áróður fyrir sig á fréttastofu Ríkisútvarpsins.“

Forsetinn sagði að greinilegt væri af málflutningi frambjóðenda að mikill ágreiningur væri um forsetaembættið. Spurður um niðurstöður skoðanakannana sagði hann að það væru hvorki frambjóðendurnir né fjölmiðlar sem ákvæðu hver yrði forseti. „Það er almenningur og hver og einn verður að beygja sig fyrir þeim dómi.“

„Ef þjóðin kemst að þeirri niðurstöðu að fela öðrum þetta vald; vera sá öryggisventill sem þjóðin þarf á að halda, þá uni ég því.“

Hann sagði ljóst að margir teldu sig eiga harma að hefna vegna framgöngu hans í Icesave-málinu og að það kæmi berlega í ljós í kosningabaráttunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert