Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að í samskiptum sínum við núverandi forseta hafi ríkisstjórnin í einu og öllu fylgt stjórnarskrá og mótuðum stjórnskipunarhefðum. „Er því óhjákvæmilegt að vísa á bug öllum ásökunum um að annað hafi átt við í samskiptum ríkisstjórnarinnar eða forystumanna hennar og núverandi forseta.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsætisráðherra.
Þar segir að vegna fyrirspurna frá fjölmiðlum í kjölfar viðtals við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, vilji forsætisráðherra taka fram eftirfarandi:
„Forsætisráðherra mun ekki blanda sér í kosningabaráttu vegna væntanlegs kjörs til embættis forseta Íslands og mun því ekki bregðast við ummælum sem fram komu í útvarpsviðtali við forsetann í dag.
Mikilvægt er að sú barátta fari vel og málefnalega fram og umdeildum málum á vettvangi stjórnmálanna sé haldið aðgreindum frá forsetakosningum. Hverjum og einum frambjóðanda er auðvitað í sjálfsvald sett hvernig hann eða hún kýs að tjá sig um slík mál eftir atvikum.
Í samskiptum sínum við núverandi forseta hefur ríkisstjórnin í einu og öllu fylgt stjórnarskrá og mótuðum stjórnskipunarhefðum. Er því óhjákvæmilegt að vísa á bug öllum ásökunum um að annað hafi átt við í samskiptum ríkisstjórnarinnar eða forystumanna hennar og núverandi forseta.“
Segir Jóhönnu í herferð gegn sér.