Ólafur Ragnar með mest fylgi

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur afgerandi forskot á aðra frambjóðendur samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Um 53,9 prósent þeirra sem afstöðu taka segjast myndu kjósa Ólaf Ragnar ef gengið yrði til kosninga nú.

Könnunin var gerð í gærkvöldi og í fyrrakvöld. Í síðustu könnun Fréttablaðsins, sem gerð var dagana 11. og 12. apríl, sögðust 46 prósent styðja Ólaf. Verulega dregur úr stuðningi við Þóru Arnórsdóttur samkvæmt könnuninni. Um 35,4 prósent styðja Þóru nú, en í síðustu könnun sögðust 46,5 prósent myndu kjósa hana, sem var svipaður stuðningur og við sitjandi forseta.

Um 5,3 prósent þeirra sem afstöðu taka myndu kjósa Ara Trausta Guðmundsson og 2,7 prósent Andreu J. Ólafsdóttur. Um 1,3 prósent þeirra sem afstöðu taka styðja Herdísi Þorgeirsdóttur og 0,9 prósent Ástþór Magnússon. Enginn þeirra 800 sem hringt var í nefndi Hannes Bjarnason. Alls tóku 79,5 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til einhvers frambjóðenda í könnuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert