Málskotsréttur forseta Íslands er skýlaus réttur þjóðarinnar til að hafa lokaorð í umdeildum og mikilvægum málum. „Valdið kemur frá okkur fólkinu og embætti forseta Íslands er á vissan hátt farvegur fólksins til að hafa áhrif og koma vilja sínum á framfæri,“ sagði Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.
Hún sagði mikilvægt að í embætti forseta Íslands yrði kosin manneskja óbundin af stjórnmálaflokkum. „Það er mikilvægt á þessum óvissutímum sem við lifum á, núna reynir á að embætti forseta Íslands skipi hæfileikamanneskja og manneskja með góða dómgreind. Mikilvægt að hún sé óbundin af stjórnmálaflokkum, það séu ekki sterkir hagsmunaaðilar á bak við hana og hún fljúgi ekki inn vængjum slíkra aðila.“ Forseti verði að eiga trúnað þjóðarinnar og þingsins.
Herdís sagði að forseti Íslands þyrfti í allri sinni framgöngu að gæta hagsmuna þjóðarinnar og gæta að þremur grunngildum: Mannréttindum, lýðræði og réttarríki.
Spurð hvort einhver mörk væru fyrir því sem forseti mætti tala um þegar kæmi að hagsmunum íslensku þjóðarinnar, t.d. þegar litið væri til íslensku útrásarinnar, sagði Herdís að forseti sem hefði í huga hagsmuni þjóðarinnar færi ekki í offorsi að tala fyrir ákveðnum sérhagsmunum. „Hann hagar sér ekki eins og sölumaður heldur reynir hann að hjálpa til og liðka fyrir, þar notar hann aftur sína dómgreind, gætir að virðingu embættisins, virðingu þjóðarinnar og hagsmunum hennar og er ábyrgur. Eins og Ólafur Jóhannesson sagði í ritinu Stjórnskipun Íslands, að þetta embætti skipi hæfileikamanneskja og þetta embætti skipi þroskaður og reyndur einstaklingur sem hleypur ekki á eftir vitleysu heldur er hæfur til að leggja mat á það hvar mörkin liggja hverju sinni.“
Herdís leggur mikla áherslu á lýðræði og mannréttindi. Spurð hvort þrengdi að lýðræðinu og mannréttindunum á næstu árum, svaraði hún að frelsið krefst stöðugrar árvekni. „Við erum stöðugt í hættu að missa það, það er ekki eitthvað sem við höfum og fáum í eitt skipti fyrir öll. Á hverjum degi er mannréttindum ógnað og lýðræði ógnað. Við teljum okkur hafa borgaraleg og stjórnmálaleg grunnréttindi, á þeim byggist síðan krafa okkar um félagsleg réttindi, efnahagsleg réttindi og önnur réttindi en við verðum stöðugt að vakta þessi réttindi.“
Þá var Herdís spurð að því hvort forseti ætti að gefa upp skoðun sína á stórum deilumálum, t.d. á kvótamálinu og Evrópusambandinu, og hvort hún sem frambjóðandi þyrfti að gefa upp sína afstöðu.
„Forseti sem hefur hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi reynir að hjálpa þjóðinni að átta sig á hvernig hagsmunir hennar liggja. Hvernig hann tekur á hverju máli fyrir sig er háð þeim tímapunkti sem það á sér stað á, þannig að það er ekki hægt að segja fyrir um hvernig forsetinn talar fyrir ákveðnum máli eftir tvö til þrjú ár en hann talar út frá hagsmunum þjóðarinnar. Ég sem forseti myndi alltaf líta á hverjir eru hagsmunir þessarar þjóðar, hvernig get ég talað fyrir hennar hagsmunum og sett þá hluti í samhengi við þann grundvöll sem ég hef fyrir framan mig sem eru að mannréttindi borgara í íslensku samfélagi séu best tryggð, öll mannréttindi: Eignaréttindi, tjáningarfrelsið, friðhelgin, félagafrelsið, öll þessi réttindi, hvernig lýðræðið sé tryggt, hvort því sé ógnað.
Ég get ekki sagt fyrirfram hvernig ég myndi tala fyrir ákveðnu máli eða hvort ég myndi tala fyrirfram með því eða gegn þvi heldur myndi ég reyna að hjálpa til við að raungera hagsmuni þjóðarinnar eins og ég skil þá og get best orðið þessari þjóð að liði, sem hennar þjónn.“