„Það er eins og fólk hafi það nú á bak við eyrað að þetta embætti sé Hrói höttur samfélagsins, að forsetinn geti breytt húsnæðismálum eða komið þannig inn í samfélagsmálin að hann geti leitt til afgerandi breytinga [..] en hann hefur fá úrræði önnur en málskotsréttinn,“ sagði Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Beiting málskotsréttarins sé stórt skref og að baki verði að vera mjög upplýst ákvörðun. „Hann gerir það að verkum að forsetinn er kominn í klemmu. Það hefur sýnt sig að beiting réttarins þýðir ekki stjórnarslit og hún þýðir ekki heldur að ef forsetinn hefur svo rangt fyrir sér eigi hann að segja af sér. Þetta er ekki einföld ákvörðun. [...] Hvað þurfi til að beita málskotsréttinum fer eftir eðli hvers máls, hvort þurfi undirskriftir, skoðanakannanir, áskoranir eða einfaldlega bara yfirlegu forsetans, það verður að ráðast frá einu máli til annars.“
Ari Trausti hefur sagst ætla að eyða meiri tíma á Íslandi en erlendis nái hann kjöri. „Ég var ekki að tala um 4-8 ára tímabil heldur næsta ár eða svo. Ég held að framganga forseta á alþjóðavettvangi sé gríðarlega mikilvæg. Ég hef kynnst þjóðhöfðingum og þeirra hugmyndum því ég hef séð um leiðsögn í opinberum heimsókum í áratugi. Ég hef fundið fyrir því hvernig litið er á embættið, hef ferðast víða og líka fundið hvernig menn hugsa um Ísland, um þjóðhöfðingjann eða hlutverk Íslands í heiminum. Það er klárt mál að „sendiherrahlutverkið“ er gríðarlega mikilvægt en núna finnst mér ástandið þannig að það þurfi að leggja mikla rækt við heimalandið og það myndi ég gera a.m.k. fyrsta árið í embætti, jafnvel annað líka.“
Ari Trausti segist ekki skilgreina sig sem pólitískan frambjóðanda, þótt í raun séu allir frambjóðendurnir pólitískir. „Það er spursmál hvort maður hafi tengsl inn í pólitíska flokka eða samtök eða sé með opinbera fyrirfram mótaða skoðun. Það held ég að sé ekki í mínu tilviki. Ég er óháður og hef ákveðna hillu sem er til hliðar við þessa tvo sem eru efstir í skoðanakönnunum hingað til. Ég held það sé mikil þörf á þessari tegund frambjóðanda með mínu jarðbundnu reynslu, miklu þekkingu og samfélagsgagnrýnu afstöðu sem ég hef haft.“
Spurður hvort forseti ætti að greiða götu íslenskra stórfyrirtækja í útlöndum sagði hann að svarið væri já og nei, forsetinn gegndi nokkurs konar sendiherrahlutverki. „Hann er talsmaður Íslands á erlendum vettvangi en hann verður að gæta sín að mismuna ekki þeim sem hann er að hjálpa til við að kynna, listamönnum eða fyrirtækjum, að hann sé enginn sérstakur talsmaður ákveðins geira, eða ákveðinna aðferða í viðskiptum en hann auðveldar íslenskum aðilum að kynna sig erlendis.“
Nefnt var að í kosningabaráttunni hefði gjarnan komið upp sú krafa að frambjóðendur gæfu upp afstöðu sína til ákveðinna hitamála, t.d. varðandi kvótakerfið og ESB-aðild. „Það er eitt að vera forsetaframbjóðandi og annað að vera forseti. Aðalatriðið er að þú verður að ákveða hverju sinni hvort þú reynir að leiða þetta hjá þér eða svara án þess að taka beina afstöðu því það gæti komið sér illa í umræðunni. Afstaðan getur ekki komið í veg fyrir þína framgöngu við að fá lýðræðislega niðurstöðu í málið, þess vegna er það ákveðin kúnst að skilja milli persónulegrar afstöðu í ótal málum og þess hvernig þú reynir að fá lýðræðislega niðurstöðu í málið. Það er jú mikilvægt að forseti sé ekki skoðanalaus en einnig mikilvægt að hann tali heldur ekki eins og fimm stjórnmálaflokkar, þannig að þú sért búinn að glata trausti þeirra sem kusu þig og getir aldrei unnið traust þeirra sem ekki kusu þig,“ sagði Ari Trausti og bætti við að lokum að hann væri ekki hlynntur að forseti sæti 3-4 kjörtímabil, tvö væri hæfilegur tími.