„Ég hef stundum verið spurður að því hver meginlærdómurinn sé sem ég hef dregið af mínu starfi. Svar mitt er einfalt: Að fólk, almenningur, er skynsamt og við eigum að treysta því. Lýðræði byggist á því að treysta fólki til að taka rétta ákvörðun,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson forsetaframbjóðandi í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Hann sagðist ekki telja að eðlisbreytingar hafi orðið á embætti forseta í sinni tíð, ekki hvað stjórnskipun snerti. „Ég hef starfað algerlega í samræmi við stjórnskipun landsins, held það geti ekki nokkur maður nefnt dæmi um það að með orðum eða athöfnum hafi ég brotið í bága við stjórnskipun Íslands eða stigið út fyrir hennar ramma.“
Hann hafi þó vissulega virkjað málsskotsréttinn. „26. grein var sett í stjórnarskrána á sínum tíma í ákveðnum tilgangi vegna þess að sú lýðræðishugsjón sem fólkið sem færði okkur sjálfstæði aðhylltist, hún var á þann veg að það væri þjóðin sem hefði æðsta rétt. Þess vegna var gert ráð fyrir því í stjórnarskránni að ef þorri þjóðarinnar væri ósáttur við ákvarðanir Alþingis þá fengi almenningur landsins málið í sínar hendur. Þess vegna gerir 26. grein beinlínis ráð fyrir ágreiningi á milli þjóðar og Alþingis og ágreiningi á milli forsetans og Alþingis. Það er alger misskilningur að halda því fram að stjórnarskrá byggist á að forseti elti alltaf Alþingi og að það sé fullur samhljómur þar á milli. Þvert á móti er 26. greinin trygging fyrir að hægt sé að leysa ágreining milli þjóðar og þings.“
Þáttastjórnendur nefndu að Ólafur Ragnar hafi sagt að það væri ekki sjálfgefið að forseti fylgi utanríkisstefnu þings eða stjórnvalda á hverjum tíma. „Þótt það sé æskilegt að það sé samhljómur og það þjónar hagsmunum lýðveldisins þá geta komið þeir tímar að forseti verði að fara aðrar leiðir. Það var ég að gera í Icesave-málinu,“ sagði Ólafur Ragnar og bætti við að þrátt fyrir gríðarmikla andstöðu ríkisstjórna í Evrópu, meirihluta Alþingis og fjölmiðla á sínum tíma sé nú leitun að þeim manni sem telji að það hafi verið röng ákvörðun að hafna fyrsta Icesave-samningnum. „Þrátt fyrir þessa gríðarmiklu andstöðu var það þjóðarnauðsyn að ég færi aðra leið en ríkisstjórnin vildi þá. Á endanum sameinaðist þjóðin í andstöðu við Icesave eitt þannig að forsetinn varð í því verki gríðarlegt einingarafl.“
Hann segist engar áhyggjur hafa af yfirstandandi málarekstri gegn Íslandi vegna Icesave. Jafnvel þótt úrskurður falli sem einhverjir myndu telja Íslendingum í óhag telji hann það myndu hafa litlar sem engar afleiðingar. Fjármálaráðherra Breta hafi fyrir skemmstu fagnað því að breska ríkið fengi 60% til baka út úr föllnum breskum banka. Ætli hann þá að krefjast meira en 100% út úr Landsbankanum? „Ég hef litla trú á því en þetta sýnir að Icesave-málinu er ekki lokið enda togast á í því máli sá grundvallarágreiningur hvort eigi að ráða meiru, lýðræðislegur vilji þjóðar eða hagsmunir fjármálamarkaðar. Það koma stundum þeir tímar í sögunni að þetta val blasir skýrt við, þegar ég var búinn að greina í sundur alla efnisþætti Icesave- málsins stóð einfaldlega eftir þessi kjarni, hvort skiptir meira máli lýðræðislegur vilji fólksins eða hagsmunir fjármálamarkaðarins? Ég tel að meginframlag vestrænnar siðmenningar til heimsins hafi verið lýðræði og sú skipan sem byggist á vilja fólksins en ekki fjármálamarkaðir. Þess vegna tel ég að ákvörðun mín og niðurstaða íslensku þjóðarinnar hafi ekki aðeins verið rétt út frá hagsmunum Íslendinga heldur hafi hún líka verið í samræmi við grundvallarlýðræðishugsjónir vestræns samfélags.“
Ólafur Ragnar var spurður um siðareglur fyrir embætti forseta Íslands, en hann hefur sagt að slíkar reglur séu ekki nauðsynlegar. „Ef þú skoðar þær siðareglur sem hafa verið settar þingmönnum og ráðherrum má segja að þorrinn sé um ákveðna kurteisi og reglur um samskipti við aðra ráðherra og þingið. Það sem mestu máli skiptir í þessum siðareglum er að koma í veg fyrir fjárhagslega hagsmuni, koma í veg fyrir að fjársterkir aðilar geti haft annarleg áhrif á þingmenn eða ráðherra með að greiða þeim fyrir eitthvað sem þeir gera. Sem betur fer höfðu menn vit á því þegar íslenska stjórnarskráin var samin 1944 að banna forsetanum þetta algerlega. Að því leyti hefur stjórnarskráin falið í sér þessar siðareglur forsetans frá upphafi [...] Ef þú skoðar sumar af þeim reglum sem Alþingi setti sér í kjölfar hrunsins sjáum við á umræðunni undanfarið að það hefur ekki verið farið mikið eftir þeim.“