„Það liggur ekki fyrir. Það er aðeins of stutt frá því að hún kom með þessa óvæntu uppákomu,“ sagði Freyr Einarsson, ritstjóri á fréttastofu Stöðvar 2 aðspurður um hvernig brugðist verði við þeim tíðindum að Þóra Arnórsdóttir, forsetaframbjóðandi hyggist ekki þiggja boð um að mæta Ólafi Ragnari Grímssyni í kappræðum annað kvöld.
„Ekki hún kannski persónulega, en kosningastjóri, fjölmiðlafulltrúi og fleiri í hennar kosningaráði voru búin að staðfesta við mig,“ sagði Freyr aðspurður um hvort Þóra hafi verið áður búin að staðfesta komu sína.
„Það hefur ekki komið kannski beint frá henni, enda höfum við ekki átt nein bein samskipti beint við hana frekar heldur en við Ólaf Ragnar. Þannig að þetta er ekki satt sem hún er að segja,“ sagði Freyr og að það hafi ekki verið neinn misskilningur í þessum samskiptum og hafi verið staðfest af fleiri en einum aðila í hennar hópi.
„Ég reikna með að þessi þáttur fari í loftið í einhverju formi. Ég er að bíða eftir að mitt fólk mæti hérna á svæðið og við sjáum hvernig við getum brugðist við þessu. En ég get sagt það að þessi þáttur fer í loftið, hvernig sem hann verður,“ sagði Freyr.
Aðspurður um hvort til greina komi að bjóða hinum frambjóðendunum einnig í þáttinn sagði Freyr: „Já það náttúrulega er einn af möguleikunum í stöðunni. Við höfum vísað í það að þetta er aðferð sem notuð er mjög víða og í rauninni hefur Stöð 2 alltaf beitt þessari aðferð. Við munum hafa samband við hina frambjóðendurna. Við viljum frekar setja þetta í loftið, en að sleppa þessu. Við erum náttúrulega að hugsa um hvernig við þjónum okkar áhorfendum best.“