Forsetaframbjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason og Herdís Þorgeirsdóttir hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna fyrirkomulags á umræðuþætti á Stöð 2 í kvöld þar sem fjallað verður um forsetakosningarnar.
Gagnrýna þau fyrirkomulag þáttarins, sem samkvæmt því sem fram kemur í yfirlýsingunni á að vera þannig að tveir og tveir frambjóðendur komi saman fram í einu, en ekki verði um að ræða að allir sex verði í útsendingu í einu. Auk þess hafi Ólafi Ragnari Grímssyni og Þóru Arnórsdóttur verið stillt upp saman. Vilja þau að dregið verði um hverjir tveir komi fram saman.
Tilkynning forsetaframbjóðendanna er svohljóðandi:
„Vegna mikillar ónægju í þjóðfélaginu með fyrirkomulag umræðuþáttar í kvöld hjá Stöð 2 ákvað sjónvarpsstöðin að bjóða öllum forsetaframbjóðendum til kappræðufundar en ekki eingöngu tveimur eins og upphaflega var ákveðið. Fyrir tilviljun höfum við undirritaðir frambjóðendur nú komist að því að ekki verður um kappræðufund að ræða heldur spurningatíma til tveggja og tveggja frambjóðenda í senn og þeim tveimur frambjóðendum sem upphaflega áttu eingöngu að vera í þættinum verður áfram stillt upp saman.
Við lýsum vonbrigðum okkar yfir því að Stöð 2 skuli ekki hafa þann kappræðufund með frambjóðendum sem okkur var tjáð að ætti að verða þegar okkur var boðið til þátttöku á síðustu stundu og úr því að Stöð 2 ætlar að halda þessu fyrirkomulagi að eingöngu tveir frambjóðendur komi fram í senn förum við þess á leit að dregið verði um það í hvaða röð frambjóðendur komi fram.“