Var um örþrifaráð að ræða

Andrea Ólafsdóttir, forsetaframbjóðandi.
Andrea Ólafsdóttir, forsetaframbjóðandi.

„Það var ekki fyrirfram ákveðið löngu fyrir útsendingu að ganga út, heldur vegna þeirra viðbragða og meðferðar sem við fengum. Okkur þótti fjölmiðillinn misbeita valdi sínu gróflega, bregðast lýðræðislegu hlutverki sínu og við ákváðum að ganga út,“ segir Andrea J. Ólafsdóttir í pistli á heimasíðu sinni í dag um þá ákvörðun hennar, Ara Trausta Guðmundssonar og Hannesar Bjarnasonar að lesa upp yfirlýsingu í byrjun útsendingar Stöðvar 2 í gærkvöldi þar sem til stóð að fram færu kappræður forsetaframbjóðenda.

Andrea segir að öðrum forsetaframbjóðendum en Ólafi Ragnari Grímssyni og Þóru Arnórsdóttur hafi verið sýnd lítilsvirðing með ófaglegum vinnubrögðum Stöðvar 2 og því hafi þau Ari og Hannes ákveðið að grípa til þessa örþrifaráðs. Í pistlinum rekur hún málið og samskiptin við Stöð 2 eins og þau koma henni fyrir sjónir.

Eins og meðal annars var fjallað um á mbl.is var upphaflega ætlunin að eingöngu Ólafur og Þóra yrðu í þættinum en Stöð 2 ákvað síðan að bjóða öllum frambjóðendunum í þáttinn. Andrea, Ari og Hannes voru þó ósátt við að tveir frambjóðendur kæmu fram í einu samkvæmt stafrófsröð þannig að Þóra og Ólafur kæmu fram í lokin.

„Nú kann einhver að segja að stafrófið mismuni engum. Höfuðatriðið hér er hins vegar það að slík pörun takmarkar mjög málefnalega umræðu við þá tvo frambjóðendur sem lenda saman. Það sér það líka hver heilvita maður að óbeint er tveimur síðustu frambjóðendunum hampað með þessu. Umræður okkar fjögurra sem við bættumst verða að upphitun fyrir aðalatriðið. Við hin fjögur sáum strax í gegnum þetta og fundum öll sömu lyktina af þessu,“ segir Andrea.

Pistill Andreu J. Ólafsdóttur í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert