Ríkisútvarpið telst ekki vanhæft til að fjalla um forsetakosningar 2012, þótt einn frambjóðenda og eiginmaður hennar hafi starfað hjá stofnuninni og séu í launalausu leyfi samkvæmt niðurstöðu álitsgerðar sem Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla íslands, og Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild, hafa unnið fyrir RÚV. Þetta kom fram í fréttum RÚV.
Herdís Þorgeirsdóttir krafðist þess í síðasta mánuði að enginn samstarfsmaður Þóru Arnórsdóttur og Svavars Halldórssonar kæmi nálægt þáttagerð vegna kosninganna.
Róbert og Trausti Fannar segja í álitsgerð sinni að RÚV þurfi að tryggja að framsetning efnis sé óhlutdræg. Nánir vinir frambjóðenda geti ekki talist óhlutdrægir, en það að fólk hafi starfað saman, jafnvel náið og um langan tíma, leiði ekki til þess að það geti talist hlutdrægt.