„Ég vildi nú bara vekja athygli á því að það eru um það bil þrjár vikur til forsetakosninga ef ég veit rétt og [...] og óheppilegt held ég að þingið starfi mjög mikið ofan í þá kosningabaráttu sem að nú þegar er hafin og er framundan og hvað þá að fara alveg upp að kjördegi þegar kemur að því að kjósa forseta.“
Þetta kom fram í máli Gunnars Braga Sveinssonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag og bætti hann því við að það yrði jafnvel enn verra ef kosningabaráttan vegna forsetakosninganna færðist með einhverjum hætti inn í þingsal „sem gæti nú orðið býsna athyglisvert.“
Gunnar sagðist því vilja beina því til forseta Alþingis að hún beitti sér fyrir því að botn fengist í þingstörfin þannig að þingið yrði ekki með einhverjum hætti að skyggja á forsetakosningarnar og kosningabaráttuna.
„Við verðum að sjálfsögðu að bera virðingu fyrir því embætti sem þarna er í húfi. Þetta er forseti lýðveldisins sem er verið að kjósa og því ættum við að sjá sóma okkar í því að gefa því fólki, því ágæta fólki svigrúm til að sinna sinni baráttu,“ segir Gunnar.
Hann sagðist gera ráð fyrir því að einhver fordæmi væru fyrir því hvenær þinghaldi hefði verið lokið þegar forsetakosningar væru framundan og hvatti forsætisnefnd Alþingis til þess að fara yfir málið og finna dagsetningu fyrir þinglok.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir með Gunnari Braga en sagðist hins vegar telja að Alþingi þyrfti að koma saman aftur í júlí að loknum forsetakosningum til þess að ræða frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld ef ríkisstjórnin ætlaði að halda því til streitu að reyna að koma frumvarpinu í gegn á þessu þingi.