Ætlar sér að brúa bilið

Þóra Arnórsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

Þóra Arnórsdóttir forsetaframbjóðandi segist eiga möguleika á því að brúa það bil sem er á milli hennar og Ólafs Ragnars Grímssonar, sitjandi forseta, í skoðanakönnunum, nú þegar þrjár vikur eru til kosninga.

Hún nýtur 33,2% stuðnings og Ólafur Ragnar 50,2% í könnun sem Plúsinn gerði fyrir þáttinn Sprengisand á Bylgjunni, en Þóra var gestur Sigurjóns M. Egilssonar í útvarpsþættinum í morgun.

Hún bendir á að skoðanakannanirnar séu mjög misvísandi. „Það eru kannski tvær kannanir sem eru gerðar sama dag sem sýna gjörólíkar niðurstöður,“ segir hún og bætir við að hún finni fyrir miklum krafti hjá sínum stuðningsmönnum.

Aðspurð segir Þóra að umræðan hafi snúist um of um það sem Ólafur Ragnar hafi gert þau 16 ár sem hann hafi verið forseti.

„Við erum að kjósa forseta til næstu fjögurra ára - og mér finnst það stundum gleymast,“ segir hún.

Þá segir Þóra að hún sé ósammála Ólafi Ragnari varðandi það að valdsvið forsetans hafi breyst. „Ég er ekki viss um að það sé heppilegt að forsetinn sé mjög upptekinn af valdi og valdsviði sínu,“ segir hún og bætir við að forsetinn hafi næg verkefni fyrir.

Hún segir það ferlegt hversu lítils trausts Alþingi njóti meðal þjóðarinnar. Lausnin sé hins vegar ekki sú að forsetinn taki sér aukin völd heldur eigi hann að taka fyrstu skrefin í því að endurreisa traust almennings á löggjafanum.

Aðspurð segir Þóra að hún hafi liðið fyrir það í kosningabaráttunni að hafa verið starfsmaður RÚV fremur en að hafa notið þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert