Forsetinn umræðustjóri þjóðarinnar

Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi segist ekki getað svarað því til …
Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi segist ekki getað svarað því til hvort hann hefði vísað Icesave málinu til þjóðarinnar. Ómar Óskarsson

Ari Trausti Guðmundsson forsetaframbjóðandi sagði í viðtali í Íslandi í bítið á Bylgjunni í morgun að það væri ekki hlutverk forsetans að vera „eins manns pólitískur flokkur,“ og leiddi í ljós þá afstöðu sína að hann liti ekki svo á að forseti ætti að taka afstöðu með eða á móti í stærri deilumálum. „Forsetinn á að vera nokkurs konar „moderator“, það er að segja orðahirðir eða umræðustjóri þjóðarinnar. Einstaklingur sem reynir að forma umræðuna, gera mót- og meðrök ljós og benda á lausnir,“ sagði Ari.

Hann tók sem dæmi að það yrði ekki hans hlutverk sem forseta að vera með eða á móti virkjunum í Þjórsá. „Það væri ekki mitt hlutverk að útlista mínar skoðanir sem stangast gætu á við skoðanir íbúa þeirra plássa sem um ræðir. Ef það er orðið verksvið forsetans að vera eins manns pólitískur flokkur erum við búin að týna þeim þjóðkjörna trúnaðarmanni sem mér finnst að forsetinn eigi að vera.“ Í umræðu um auðlindir sagði Ari að hann styddi sjálfbæra auðlindanýtingu sem byggir á að auðlindirnar séu notaðar í héraði að einhverju leyti og að menn taki tillit til allra þátta, bæði hagrænna og umhverfisverndarsjónarmiða. 

„Do's and dont's“ í auðlindamálum

Hann ítrekaði þá skoðun sína að forseti væri fyrst og fremst nokkurs konar umræðustjóri, „ég gæti komið skynsamlegum rökum á flot, bæði með eða á móti. Það er hlutverk mitt, en ekki að gera lista yfir „do's and dont's“ þegar kemur að auðlindamálum.“

Hann gerði athugasemdir við að í fjölmiðlum væri talað við forsetaframbjóðendur eins og þeir væru þingmenn, þannig að falast væri eftir þeirra skoðunum á pólitískum álitamálum, sem væri ekki beinlínis hlutverk forsetans. 

Ari tjáði sig um mál þjóðkirkjunnar. „Búið er að skera mikið á tengsl milli ríkis og kirkju, þannig að þjóðkirkjan er sjálfstæð að öðru leyti en fjárhagslegu. Forseta ber að vernda og virða þjóðkirkjuna, og það mun ég gera.“ Hann tók þó fram að afstaða hans í trúmálum væri flókin, en hann er ekki skráður í þjóðkirkjuna og ólst upp á kaþólsk/lúthersku heimili. „Ég hef klofna trúarafstöðu og er einn af þessum leitandi mönnum í trúmálum. Á ferðalögum mínum hef ég færst á þá skoðun að kristni sé ekki eina trúin sem er gildandi í alheimssamfélaginu. Ég er efasemdarmaður í trúmálum, virði lífs- og trúarskoðanir og tel að þær eigi að vera jafnréttháar.“

Þingsins að leiðrétta stöðu kirkjunnar

„Þegar kemur að stjórnarskrárbundnu skyldunum stend ég að sjálfsögðu með kirkjunni en líka ríkisvaldinu. Upp er komin erfið staða hjá þjóðkirkjunni vegna niðurskurðar. Það er hins vegar hlutverk þingsins, ekki forseta að laga það. Ekki er hægt að breyta þessari skipan nema með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi umræða þarf að fara betur í gang á næstu árum,“ segir Ari Trausti. ,,Á Íslandi er fjölmenningarsamfélag og þá skiptir máli hvernig trúfélög starfa hér á landi,“ bætti hann við.

Í málefnum flóttamanna segir hann margt gagnrýnivert. „Ég hef hins vegar þá framtíðarsýn að á Íslandi eigi sambúð innflytjenda og Íslendinga að fara vel saman, hún gengur víða vel og hér er pláss fyrir miklu fleiri innflytjendur“, en að sögn Ara er íslenska þjóðin í grunninn innflytjendur. „Ég ætla ekki að beita mér fyrir því að hér verði settar reglur um takmörkun innflytjenda. Ef það er þjóðarvilji þá er það hlutverk þingsins að setja fram lagafrumvarp um málið.“

Málskotsrétturinn neyðarúrræði

Málskotsréttinn bar á góma í viðtalinu og Ari sagði ómögulegt væri að búa til almenna reglu um réttinn, en hann teldi aðalmálið vera atriði eins og ,,hvert er málefnið, hversu stórt er það, hvernig meðferð fær það í þinginu, hvernig var það afgreitt, hver er stemningin fyrir því í samfélaginu?“ 

Hann sagði erfitt að mæla vilja þjóðarinnar fyrir fram. „Kannanir, undirskriftir og annað slíkt þurfa að koma til svo forsetinn átti sig á hvort hann sé að hlýða kalli þjóðarinnar.“

Ari Trausti neitaði að svara spurningu um hvort hann hefði nýtt sér málsskotsréttinn í Icesave málinu, því ,,ómögulegt væri að setja sig í stöðu forsetans í þeim aðstæðum“.

Hann sagði að finna þyrfti betri leiðir til að virkja samráð milli þjóðar og leiðtoga milli kosninga, virkja yrði beint lýðræði af meiri krafti. ,,Málsskotsrétturinn getur svo verið neyðarkostur þegar annað þrýtur.“ 

Hann sagðist ekki myndu taka afstöðu í tilteknum deilumálum, hann sé ,,ekki Hrói höttur“. ,,Ég yrði ekki í stjórnarandstöðu annan daginn og stjórnarsinni hinn daginn. Ég myndi hins vegar skipta mér af öllum samfélagsmálum, enda alþýðlegur náttúru- og menningarsinni. Ég vil vera þjóðkjörinn trúnaðarmaður til hliðar við þingið.“

Að lokum sagði Ari Trausti það lýðræðislega skyldu kjósenda að taka upplýsta afstöðu til frambjóðenda, og hvatti kjósendur til að kjósa ekki taktískt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert