Herdís vill opið bókhald forsetaframboða

Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi
Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi Árni Sæberg

Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi skorar á frambjóðendur til embættis forseta að opna bókhald framboðanna. Sjálf hefur Herdís opnað bókhald framboðs síns.

Bókhald Herdísar er aðgengilegt á vefsíðu hennar.

Þar kemur meðal annars í ljós að ýmsir einstaklingar hafa styrkt framboð Herdísar og eru þeir allir nafngreindir. Hæstu framlögin nema 50.000 krónum.

Í yfirlýsingu, sem Herdís sendi frá sér í dag, segir að lög um fjármál frambjóðenda tryggi ekki nægilegt gagnsæi framboða þar sem frambjóðendum er í sjálfsvald sett hvort þeir gefa upp framlög frá einstaklingum sem eru undir 200.000 krónum. Hún segir opið bókhald forsetaframboðanna forsendu þess að við getum „unnið okkur út úr þeirri spillingu sem sett hefur mark sitt á íslenskt samfélag“. 

Algert gagnsæi varðandi fjárframlög í kosningabaráttu sé forsenda þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvern þeir vilja kjósa til æðsta embættis þjóðarinnar.

„Í þessari kosningabaráttu hef ég lagt áherslu á að ég er óháð peningaöflum og hagsmunahópum. Gagnsæi í fjárframlögum í kosningabaráttu er forsenda þess að kjósendur geti treyst því að frambjóðandi sé ekki á framfæri sérstakra peningaafla eða hagsmunahópa,“ segir Herdís í yfirlýsingunni.

„Ég rak fyrirtæki í tæpan áratug og hef skilning á lögmálum atvinnulífsins og finnst eðlilegt að framtakssemi og frumkvæði fylgi fjárhagslegur ávinningur. Peningaöfl eiga hins vegar ekki að ráða því hverjir eru kjörnir til áhrifa í lýðræðislegu samfélagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert