Íslendingar ganga að kjörborðinu þann 30. júní, í sjöundu forsetakosningum lýðveldisins, en alls hafa fimm gegnt embættinu hingað til. Frambjóðendur hafa aldrei verið fleiri, eða sex og aldrei fyrr hafa kynjahlutföll á milli frambjóðenda verið jöfn. Þá er helmingur frambjóðenda um fertugt.
Alls hafa 20 verið í kjöri til embættisins frá árinu 1952, 14 karlar og sex konur.
Aldur þeirra sem nú bjóða sig fram hefur verið nokkuð í umræðunni og hefur hún einkum snúist um hvort einstakir frambjóðendur séu of ungir eða of aldurhnignir. Reyndar er meðalaldur þeirra sem nú bjóða sig fram síður en svo hár miðað við fyrri kosningar, eða 52,8 ár. Meðalaldur allra frambjóðenda til forsetaembættisins er 55 ár.
Sá elsti var 72 ára
Elsti frambjóðandinn til embættisins var Gísli Sveinsson, sem bauð sig fram árið 1952 er hann var 72 ára. Annar af tveimur andstæðingum hans. Bjarni Jónsson var litlu yngri en hann var þá 71 árs. Þriðji frambjóðandinn var Ásgeir Ásgeirsson, sem var 58 ára og togaði meðalaldurinn nokkuð niður, sem var þrátt fyrir það sá hæsti í forsetakosningum hér á landi eða 67 ár.
Lægstur var meðalaldur forsetaframbjóðenda árið 1996 þegar hann var 48,8 ár.
Ástþór var yngstur þangað til nú
Aldrei fyrr hefur jafn mikill aldursmunur verið á frambjóðendum, en 32 ár eru nú á milli þess elsta og yngsta. Einnig hafa aldrei jafn margir frambjóðendanna verið í kringum fertugt, en þrjú þeirra sem bjóða sig fram, þau Andrea J. Ólafsdóttir, Þóra Arnórsdóttir og Hannes Bjarnason eru á aldrinum 37-41 árs.
Þóra, sem er 37 ára er yngsti frambjóðandinn til forsetaembættisins fyrr og nú, en fram að þessum kosningum var Ástþór Magnússon sá yngsti, en hann var 43 ára þegar hann bauð sig fram til forseta Íslands árið 1996.
Þeir sem til eru taldir eru þeir einstaklingar sem hafa verið í kjöri, ekki þeir sem hafa dregið framboð sín til baka fyrir kosningar.