„Við sameinumst um Þóru“

Þóra Arnórsdóttir, er í framboði til embættis forseta Íslands.
Þóra Arnórsdóttir, er í framboði til embættis forseta Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það verða á þess­um degi viðburðir um allt land sem eru í raun bara sprottn­ir úr gras­rót­inni þar sem fólk býður til dæm­is öðrum í kaffi til sín eða fer í sund­ferð. Ein­hverj­ir ætla að hnýta flug­ur, aðrir í reiðtúr og enn aðrir ætla að hjálpa ná­grann­an­um í garðinum,“ seg­ir Guðrún Pét­urs­dótt­ir um Þóru­dag­inn sem hald­inn verður hátíðleg­ur næst­kom­andi sunnu­dag 24. júní í tengsl­um við fram­boð Þóru Arn­órs­dótt­ur til for­seta Íslands.

„Þetta verða bara alls kyns viðburðir sem verða í nafni Þóru til þess að það fari þessi bylgja hlýju og sam­hug­ar um landið,“ seg­ir Guðrún en sjálf bauð hún sig fram til for­seta árið 1996 þegar Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son náði fyrst kjöri í for­seta­embættið. Guðrún er þó ekki eini fyrr­ver­andi for­setafram­bjóðand­inn sem ætl­ar að taka þátt í Þóru­degi held­ur á það sama við um þau Pét­ur Kr. Haf­stein og Guðrúnu Agn­ars­dótt­ur sem einnig buðu sig fram í for­seta­kosn­ing­un­um 1996.

„Það er bara gam­an til þess að vita að á meðal þeirra sem ætla að opna sín heim­ili fyr­ir gest­um og bjóða gest­um að koma sam­an og gleðjast í nafni Þóru skuli vera þess­ir forðum keppi­naut­ar um embætti for­seta Íslands árið 1996. Það er auðvitað mikið vatn runnið til sjáv­ar síðan þá, heil 16 ár. Við tók­umst á á sín­um tíma en við sam­ein­umst núna um Þóru,“ seg­ir Guðrún.

Pét­ur og eig­in­kona hans Inga Ásta Haf­stein ætl­ar að sögn Guðrún­ar að bjóða gest­um og gang­andi í vöfflukaffi á heim­ili sínu á Stokka­læk á Suður­landi. Guðrún Agn­ars­dótt­ir og eig­inmaður henn­ar Helgi Valdi­mars­son ætla að bjóða fólki í kaffi til sín í Gröf í Svarfaðar­dal.

Guðrún sjálf ætl­ar hins veg­ar ásamt eig­in­manni sín­um Ólafi Hanni­bals­syni að bjóða gest­um til sín á heim­ili sitt í Árbæj­ar­hverfi í Reykja­vík. „Þar verðum við ásamt ná­granna okk­ar Jóni Mar­geirs­syni og hans konu Mar­gréti. Okk­ar garðar eru samliggj­andi og eng­in grind­verk þar á milli þannig að við ætl­um sam­an að bjóða til okk­ar.“ Þá seg­ir Guðrún að fleiri ná­grann­ar þeirra ætli að gera slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert