„Það verða á þessum degi viðburðir um allt land sem eru í raun bara sprottnir úr grasrótinni þar sem fólk býður til dæmis öðrum í kaffi til sín eða fer í sundferð. Einhverjir ætla að hnýta flugur, aðrir í reiðtúr og enn aðrir ætla að hjálpa nágrannanum í garðinum,“ segir Guðrún Pétursdóttir um Þórudaginn sem haldinn verður hátíðlegur næstkomandi sunnudag 24. júní í tengslum við framboð Þóru Arnórsdóttur til forseta Íslands.
„Þetta verða bara alls kyns viðburðir sem verða í nafni Þóru til þess að það fari þessi bylgja hlýju og samhugar um landið,“ segir Guðrún en sjálf bauð hún sig fram til forseta árið 1996 þegar Ólafur Ragnar Grímsson náði fyrst kjöri í forsetaembættið. Guðrún er þó ekki eini fyrrverandi forsetaframbjóðandinn sem ætlar að taka þátt í Þórudegi heldur á það sama við um þau Pétur Kr. Hafstein og Guðrúnu Agnarsdóttur sem einnig buðu sig fram í forsetakosningunum 1996.
„Það er bara gaman til þess að vita að á meðal þeirra sem ætla að opna sín heimili fyrir gestum og bjóða gestum að koma saman og gleðjast í nafni Þóru skuli vera þessir forðum keppinautar um embætti forseta Íslands árið 1996. Það er auðvitað mikið vatn runnið til sjávar síðan þá, heil 16 ár. Við tókumst á á sínum tíma en við sameinumst núna um Þóru,“ segir Guðrún.
Pétur og eiginkona hans Inga Ásta Hafstein ætlar að sögn Guðrúnar að bjóða gestum og gangandi í vöfflukaffi á heimili sínu á Stokkalæk á Suðurlandi. Guðrún Agnarsdóttir og eiginmaður hennar Helgi Valdimarsson ætla að bjóða fólki í kaffi til sín í Gröf í Svarfaðardal.
Guðrún sjálf ætlar hins vegar ásamt eiginmanni sínum Ólafi Hannibalssyni að bjóða gestum til sín á heimili sitt í Árbæjarhverfi í Reykjavík. „Þar verðum við ásamt nágranna okkar Jóni Margeirssyni og hans konu Margréti. Okkar garðar eru samliggjandi og engin grindverk þar á milli þannig að við ætlum saman að bjóða til okkar.“ Þá segir Guðrún að fleiri nágrannar þeirra ætli að gera slíkt hið sama.