„Það er eðlileg krafa kjósenda að vita hvaðan peningarnir koma sem greiða svo dýrkeyptar auglýsingar til að styðja þann frambjóðanda í embætti forseta – embætti sem er og verður alltaf pólitískt í eðli sínu þar sem það er hluti af stjórnskipan landsins,“ segir Andrea J. Ólafsdóttir forsetaframbjóðandi í fréttatilkynningu og vísar til þess að einn frambjóðenda auglýsi mikið þessa dagana.
Sjálf hafi Andrea ákveðið að taka ekki við styrkjum frá fyrirtækjum. Hún hafi þegið föt að láni frá íslenskum hönnuðum og sjálfboðavinnu við ljósmyndun og heimasíðugerð. Að öðru leyti hafi hún ekki farið fram á fjárhaglegan stuðning með öðrum hætti en að gefa upp bankareikning sinn og kennitölu á heimasíðunni. Inn á reikninginn hafi til þessa komið 26 þúsund krónur sem Andrea segist þakklát fyrir. Þeir peningar muni nýtast til þess að greiða fyrir kostnað vegna hýsingar á heimasíðunni og léns auk bensíns.
„Ég var fyrst til að skora á alla forsetaframbjóðendur á fundinum í Iðnó þann 30. maí að opna bókhaldið sitt og láta kjósendur vita hvaðan fjárframlög koma. Ég geri það aftur núna,“ segir Andrea. Hún segir að kjósendur hljóti „að eiga kröfu á að vita hvaðan peningar til sitjandi forseta koma. Aðrir frambjóðendur hafa eflaust minna fjármagn á bakvið sig, en eðlilegt að allir gefi það upp“.