„Í kosningum þar sem frambjóðendur sem mest fjárframlög hafa fengið neita að gefa upp hverjir styrkja þá, er það ekki fréttnæmt að 79% þjóðarinnar er á móti slíkri leynd?“ spyr Jón Þór Ólafsson, kosningastjóri Herdísar Þorgeirsdóttur, í fréttatilkynningu.
Hann segir að hafa þurfi í huga að lög um að framlög yfir 200 þúsund krónum séu opinber hafi tekið gildi fyrir hrun, eða árið 2007. Dagana 8.-15. september 2010 hafi Capacent Gallup kannað afstöðu almennings til styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka. „Í ljós kom að afgerandi meirihluti, eða 68%, eru andvíg því að íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum. Þá segjast 79% þjóðarinnar andvíg því að stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá einstaklingum án þess að nafn þess einstaklings sem veitir styrkinn sé gefið upp,“ segir Jón Þór.