Barátta byggð á „ósannindum og níðrógi“

Davíð Þór Jónsson.
Davíð Þór Jónsson. mbl.is/Brynjar Gauti

„Forsetinn hefur byggt kosningabaráttu sína á ósannindum og níðrógi. Það er borðleggjandi.“ Þetta segir Davíð Þór Jónsson, fræðslufulltrúi Austurlandsprófastsdæmis, í pistli á vefsvæði sínu. Hann vandar Ólafi Ragnari Grímssyni og kjósendum hans ekki kveðjurnar.

Hann segir pistil sinn ekki skrifaðan úr herbúðum frambjóðanda og ekki með hatri eða heift. „Auk þess er ég í raun ekki að segja neitt sem ekki hefur verið sagt áður og einhverjum ætti að vera óljóst.“

Davíð segir að þeir sem ætla að greiða Ólafi atkvæði sitt virðist láta sér það sem vind um eyru þjóta hvað dregið hefur verið upp á yfirborðið. „Einhverja kosti virðast þeir álíta hann hafa sem vegi þyngra en þeir ljóðir á ráði hans sem dregnir hafa verið fram í dagsljósið og gera hann að mínu mati gersamlega vanhæfan til að gegna embætti lengur.“

Hann segist ekki telja kjósendur Ólafs Ragnars heimskari eða verri manneskjur en þá sem hafa mætur á öðrum frambjóðendum. „Ég held aftur á móti að þeir séu haldnir sterkara foringjablæti en lýðræðinu er hollt. Helsta röksemd þeirra virðist vera að þjóðin þurfi „sterkan leiðtoga“. Ég held að þetta fólk geri sér grein fyrir því að forsetinn hefur hvað eftir annað hallað réttu máli og farið með vísvitandi ósannindi og fleipur til að afla sér fylgis, en það sér í gegn um fingur sér við hann af því að hann er í huga þess þessi sterki leiðtogi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert