Barátta byggð á „ósannindum og níðrógi“

Davíð Þór Jónsson.
Davíð Þór Jónsson. mbl.is/Brynjar Gauti

„For­set­inn hef­ur byggt kosn­inga­bar­áttu sína á ósann­ind­um og níðrógi. Það er borðleggj­andi.“ Þetta seg­ir Davíð Þór Jóns­son, fræðslu­full­trúi Aust­ur­lands­pró­fasts­dæm­is, í pistli á vefsvæði sínu. Hann vand­ar Ólafi Ragn­ari Gríms­syni og kjós­end­um hans ekki kveðjurn­ar.

Hann seg­ir pist­il sinn ekki skrifaðan úr her­búðum fram­bjóðanda og ekki með hatri eða heift. „Auk þess er ég í raun ekki að segja neitt sem ekki hef­ur verið sagt áður og ein­hverj­um ætti að vera óljóst.“

Davíð seg­ir að þeir sem ætla að greiða Ólafi at­kvæði sitt virðist láta sér það sem vind um eyru þjóta hvað dregið hef­ur verið upp á yf­ir­borðið. „Ein­hverja kosti virðast þeir álíta hann hafa sem vegi þyngra en þeir ljóðir á ráði hans sem dregn­ir hafa verið fram í dags­ljósið og gera hann að mínu mati ger­sam­lega van­hæf­an til að gegna embætti leng­ur.“

Hann seg­ist ekki telja kjós­end­ur Ólafs Ragn­ars heimsk­ari eða verri mann­eskj­ur en þá sem hafa mæt­ur á öðrum fram­bjóðend­um. „Ég held aft­ur á móti að þeir séu haldn­ir sterk­ara for­ingja­blæti en lýðræðinu er hollt. Helsta rök­semd þeirra virðist vera að þjóðin þurfi „sterk­an leiðtoga“. Ég held að þetta fólk geri sér grein fyr­ir því að for­set­inn hef­ur hvað eft­ir annað hallað réttu máli og farið með vís­vit­andi ósann­indi og fleip­ur til að afla sér fylg­is, en það sér í gegn um fing­ur sér við hann af því að hann er í huga þess þessi sterki leiðtogi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert