Dreifðu kjörseðlum á Austurvelli

Ungir menn með bunka af kjörseðlum dreifðu þeim til kjósenda …
Ungir menn með bunka af kjörseðlum dreifðu þeim til kjósenda á Austurvelli í dag og hvöttu fólk til að læða aukaseðlum með í kjörkassann. mbl.is

Mörg vitni urðu að því þegar 4-5 karlmenn á þrítugsaldri dreifðu kjörseðlum til vegfarenda á Austurvelli fyrr í kvöld. Voru þeir með bunka af seðlum og fullyrtu að þeir væru fengnir úr Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem kosning fyrir Reykjavík fer nú fram. Hvöttu þeir kjósendur á leið í Ráðhúsið til að læða aukaseðlunum með í kjörkassann. 

Ekki er í fljótu bragði hægt að sjá annað en að kjörseðlarnir séu þeir sömu og kjósendur fá afhenta við komu á kjörstaði. Að sögn heimildarmanns mbl.is sem var á Austurvelli voru mennirnir með bunka af kjörseðlum. Hann vildi þó ekki geta sér til um hversu margir þeir nákvæmlega væru, alla vega á þriðja tug.

Katrín Theódórsdóttir, formaður kjörstjórnar Reykjavíkur norður, kannaðist ekki við lýsingu á atvikinu og sagði að kjörstjórn hefðu ekki borist kvartanir þessu tengdar en hún sagði ómögulegt fyrir aðra en starfsmenn kjörstjórnar að nálgast kjörseðla. „Það er ekki fræðilegur möguleiki að fólk geti náð í aukaseðla, þrjár manneskjur eru inni í hverri einustu kjördeild og þeir gæta seðlanna á bak við sig,“ segir Katrín.

Hún sagði að ef mikill munur væri á fjölda skráðra kjósenda og þeirra atkvæða sem hefðu borist myndi það mögulega kalla á endurtalningu eða ógildingu, en sagði að ómögulegt væri að segja til um hversu mikill munurinn þyrfti að vera.

„Hins vegar er alltaf möguleiki á að fólk sé með falsaða seðla og ef svo er þá sést það áreiðanlega,“ segir Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert