„Gefur ákveðna vísbendingu“

Ólafur Ragnar og fleiri frambjóðendur í sjónvarpssal.
Ólafur Ragnar og fleiri frambjóðendur í sjónvarpssal. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson segir fyrstu tölur gefa ákveðna vísbendingu um að hann muni áfram þjóna Íslensku þjóðinni. Hann vill þó ekki fara oft greitt í að túlka stöðuna strax.

„Þessar tölur gefa ákveðna vísbendingu og samkvæmt venju benda þær til þess að mér verði falið að þjóna þjóðinni í fjögur ár til viðbótar og bera þá ábyrgð sem embættið felur í sér. Það er óábyrgt að tjá sig um úrslitin fyrr en þau liggja fyrir í heild.“

Svo virðist sem mótframbjóðendur Ólafs Ragnars séu flestir búnir að gefa upp von um að velta honum úr sæti, en þeir ræða nú fyrstu tölur í sjónvarpssal.

Andrea Ólafsdóttir segir stöðuna eins og hún liggur fyrir í augnablikinu vera ákveðin vonbrigði en að hún veki engu að síður ákveðna von. „Ég reikna með því að þetta gefi ákveðna vísbendingu og ég túlka þetta á þá leið að fólk sé í raun og veru að kjósa, með auknu beinu lýðræði, það er að segja málskotsréttinum, þrátt fyrir dræma kosningaþátttöku. Það er niðurstaðan sem kemur upp úr kjörkössunum í dag að mínu mati. En ég held að við getum átt von á því að óska forsetanum til hamingju með sigurinn.“ 

„Ég er kampakát“

Þóra sagði úrslitin vera í samræmi við það sem kannanir síðustu vikna. „Þetta er í samræmi við það sem við höfum séð að undanförnu, ég er kampakát. Að fá meira en þriðjung atkvæða hlýtur að teljast afrek þegar att er kappi við forseta til 16 ára. Þetta eru fyrstu tölur og ég get ekki annað en verið glöð, reynslan hefur verið dýrmæt. “

Herdís lýsti yfir óánægju með nálgun fjölmiðla á kosningarnar. „Kosningar milli tveggja blokka, þær virka á mig eins og kosningar stórra flokka eins og repúblíkana og demókrata. Sú áhersla á að þetta væri kosning á milli tveggja turna hefur augsýnilega haft áhrif á kjósendur. Ég tengi þetta á vissan hátt við flokka, Ólafur Ragnar fær sinn stuðning frá stjórnarandstöðunni og fylgi Þóru er frá stjórnarflokkunum. Tveggja turna tal, tvær blokkir hafa haft áhrif á kjósendur. Það er dræm kosningaþátttaka sem segir sitt. Kosningarnar hafa aldrei náð að vera dýnamískar.“ Hún sagðist lengi hafa vitað að hún myndi tapa þessari baráttu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert