Herdís Þorgeirsdóttir forsetaframbjóðandi greiddi laust fyrir hádegi atkvæði í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Í grein í Morgunblaðinu í dag sagði hún þessar forsetakosningar vera mikilvægar. „Atkvæði þitt getur ráðið því hvort við kveðjum Ísland hruns og forheimskunar; Ísland útrásarvíkinga og vitleysu; ástand þar sem sumir urðu vellauðugir í bólu, sem við flest og börnin okkar verðum að greiða dýru verði með sköttum, vöxtum og verðtryggingu.“
Hún sagði Íslendinga standa á tímamótum og það væri í okkar höndum að ákveða hvernig samfélag við vildum endurreisa á rústum hrunsins. „Það þarf hugrekki til að segja: Hingað og ekki lengra. Það þarf hugrekki til að standa gegn þeim virkjum sem peningaöflin reisa með ítökum sínum í pólitík og pressu sem síðan hafa jafnvel áhrif á prófessora og ritfæra penna. Skyldi því nokkurn undra að almenningur sé áttavilltur.“