Ólafur Ragnar búinn að kjósa

Ólafur Ragnar og Dorrit greiddu atkvæði í Álftanesskóla í hádeginu.
Ólafur Ragnar og Dorrit greiddu atkvæði í Álftanesskóla í hádeginu. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson forsetaframbjóðandi og eiginkona hans, Dorrit Moussaieff, kusu í Álftanesskóla í hádeginu.

Í grein í Morgunblaðinu í dag sagði Ólafur Íslendinga nú vera á vegamótum. „Að baki eru erfið ár. Í vændum ákvarðanir um stjórnarskrá og tengsl okkar við önnur ríki í Evrópu. Enn er ólga í efnahagsmálum álfunnar og á mörgum sviðum. Því þarf rödd Íslands að hljóma skýrt.“

Forsetinn væri á alþjóðavettvangi málsvari þjóðarinnar í sókn og vörn. Hann ætti einnig að leggja lið í glímu hennar við hin stærstu mál; þau sem í áratugi munu ráða örlögum Íslendinga.

„Það hefur líka verið okkur hjónum gleðiefni að geta á undanförnum árum tekið þátt í að efla hagsæld og velferð, rétta ungu fólki hjálparhönd og hvetja til nýsköpunar og góðra verka í atvinnulífi, listum, menningu og fræðastarfi.“

Þegar forsetahjónin höfðu lokið við að kjósa spurði Dorrit sérstaklega eftir hundi ljósmyndara mbl.is, Svarthvíti, sem hún hefur oft hitt við ýmis tækifæri. Hann náði í hana út í bíl sinn og urðu miklir fagnaðarfundir. Svo vel er Svarthvíti við forsetahjónin að þegar þau voru að fara að setjast upp í bíl sinn stökk hún inn í hann á undan þeim, við mikla kátínu nærstaddra.

Hundurinn Svarthvít vakti mikla lukku hjá forsetahjónunum.
Hundurinn Svarthvít vakti mikla lukku hjá forsetahjónunum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert