Prófessor í stjórnmálafræði segir ýmis teikn á lofti um það að kjörsókn verði minni en venja hefur verið. Hann segir að leiða á stjórnmálum geti verið um að kenna.
„Í forsetakosningum þar sem hefur verið alvöruslagur hefur kjörsókn alltaf verið svipuð og í þeim alþingiskosningum sem voru árin í kring,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði.
„Ef við miðum við síðustu alþingiskosningar þá benda tölur til þess að kjörsókn sé lítil. Hins vegar má ekki gleyma því að það varð töluvert hrun í kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum árið 2010. Það þarf því ekki að koma á óvart ef kjörsókn verður ekki mikil. Svo virðist sem þetta hrun hafi leitt af sér leiða og sinnuleysi gagnvart kosningum,“ segir Grétar.
Kosningaþátttaka í alþingiskosningum árið 2009 var í kringum 85%. Klukkan 15 gáfu tölur um kjörsókn til kynna að hún væri allt að 10% minni en á sama tíma í alþingiskosningunum 2009. Þó ber að taka það fram að utankjörfundaratkvæði hafa ekki verið fleiri í manna minnum. Um 35.000 manns hafa kosið utan kjörfundar.
Grétar telur engu að síður kjörsókn litla.
„Þessar tölur benda til þess að þátttakan gæti verið undir 80%.
Hann setur þó þann fyrirvara á að betra sé að fara eftir tölum um kjörsókn um kvöldmatarleytið. Eftir þann tíma fækki kjósendum á kjörstað hratt.