Verið hugrökk

Herdís Þorgeirsdóttir
Herdís Þorgeirsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Herdís Þorgeirsdóttir segir það í höndum Íslendinga að ákveða hvernig samfélag við viljum endurreisa á rústum hrunsins. Það þurfi hugrekki til að segja: Hingað og ekki lengra, segir hún í grein í Morgunblaðinu í dag.

„Þessar forsetakosningar eru mikilvægar. Atkvæði þitt getur ráðið því hvort við kveðjum Ísland hruns og forheimskunar; Ísland útrásarvíkinga og vitleysu; ástand þar sem sumir urðu vellauðugir í bólu, sem við flest og börnin okkar verðum að greiða dýru verði með sköttum, vöxtum og verðtryggingu.

Við stöndum á tímamótum og það er í okkar höndum að ákveða hvernig samfélag við viljum endurreisa á rústum hrunsins. Það þarf hugrekki til að segja: Hingað og ekki lengra. Það þarf hugrekki til að standa gegn þeim virkjum sem peningaöflin reisa með ítökum sínum í pólitík og pressu sem síðan hafa jafnvel áhrif á prófessora og ritfæra penna. Skyldi því nokkurn undra að almenningur sé áttavilltur.

Ekki vera hrædd.

Valdið kann að virðast ógnvekjandi. Valdið byggist á ótta og þöggun. Valdið treystir því að enginn þori að andmæla þeim boðskap sem það lætur út ganga; á vinnustöðum og í fjölmiðlum. Valdið treystir því að allir dásami það einum rómi og í því felst það. Valdið hæðir og spottar þann sem fer gegn því en það þorir ekki að horfast í augu við hann. Valdið er lúmskt og lævíst og það notar aðrar aðferðir en heiðarleika, heilindi og sannleika þótt það skreyti sig með alls konar merkimiðum þegar á þarf að halda.

Verið hugrökk.

Hugrekki er kjarni þess að vera frjáls. Tjáningarfrelsið sem er verndað í flestum stjórnarskrám og öllum alþjóðlegum mannréttindasamningum er frelsið til að hafa skoðun og tjá hana án ótta um afkomu sína.

Valdinu stendur ekki meiri ógn af nokkru en skoðanafrelsi sem jafnvel dregur lögmæti þess í efa. Þá sendir valdið út varðhunda sína og segir urrdan bítt‘ann.

Jafnvel kletturinn Pétur brást lærimeistara sínum á ögurstundu af því að hann óttaðist hið veraldlega vald. Hann afneitaði vináttu sinni við Jesú þrisvar þá sömu nótt og Jesú var svikinn. Dæmi um þöggun valdsins.

Hugrekkið felst í því að fylgja samvisku sinni og treysta á það réttlæti sem er jafnvel ofar réttlæti þessa heims – en sá sem fylgir samvisku sinni og sannfæringu, hann er frjáls í hjarta sínu – um hann flæðir vellíðan líkt og endorfín í líkama hlaupara – hann verður andlega sterkur á meðan þýlyndið framkallar þunga og slen þess hvers sál er í fjötrum ótta og þöggunar.

Viljum við vera frjálsir borgarar sem tjáum skoðanir okkar án ótta eða erum við þegnar þýlyndis, þrælar óttans. Því fleiri sem fylla fyrri hópinn því meiri líkur á að kraftmiklir borgarar nái tökum á lýðræðinu eins og hlauparar sem skara fram úr því þunglamalega hlassi sem valdið byggir tilvist sína á.

Kjósum af sannfæringu. Valdið er í okkar höndum.“

Herdís Þorgeirsdóttir

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka