„Tilraunin mistókst – skiljanlega“

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson

„Enginn forseti hefur reynst eins mikill örlagavaldur í sögu lýðveldissögunnar og lagt jafn miklar byrðar á herðar þjóð sinni sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert,“ segir Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, og einnig að það hljóti að valda áhyggjum hversu lítinn stuðning hann fékk.

Björn Valur segir í pistli á vefsvæði sínu að þrennt standi upp úr eftir kosningarnar. Í fyrsta lagi hversu lítil kjörsókn hafi verið, í öðru lagi lítill stuðningur við sitjandi forseta og í þriðja lagi að ekki hafi fundist nógu kraftmikill frambjóðandi til að fella þann Ólaf Ragnar. „Helmingur þjóðarinnar er ósáttur við forseta sinn, vill hann frá. Það undirstrikar klofninginn meðal þjóðarinnar sem forsetinn sjálfur átti ekki svo lítinn þátt í að skapa í aðdraganda hrunsins,“ segir Björn Valur og að framboðið hafi verið tilraun Ólafs til að bæta ímynd sína og endurskrifa söguna sér í vil. „Tilraunin mistókst – skiljanlega.“

Þá segir Björn Valur að sagan muni skrifa sig sjálf hvað það varðar þó tilraunir verði gerðar til að hagræða henni. „Forsetinn hefur nánast boðað að hann muni afnema þingræði í landinu þegar honum sýnist svo. Hann hefur í aðdraganda kosninganna talað þannig um stjórnskipan landsins að rétt er að hafa verulegar áhyggjur af. Samt stígur enginn fram sem þjóðin getur gert að sameiningartákni sínu sem forseta landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka