Flestir treysta Árna Páli Árnasyni til að verða næsti formaður Samfylkingarinnar, samkvæmt nýrri könnun MMR sem unnin var fyrir Viðskiptablaðið. Í heild mældist Árni Páll með 19,7% en með 26,3% meðal stuðningsmanna flokksins. Næst á eftir koma þau Guðbjartur Hannesson og Katrín Júlíusdóttir.
Viðskiptablaðið greinir frá þessu á fréttavef sínum og ræðir við Árna Pál um niðurstöður könnunarinnar. Árni segir þetta mjög ánægjulega niðurstöðu og hann líti á hana sem hvatningu.
Samkvæmt könnun MMR treysta 19,7% Árna Páli best sem næsta formanni Samfylkingarinnar, 15,4% treysta Guðbjarti best og 15% Katrínu. Þar á eftir kemur Dagur B. Eggertsson, varaformaður flokksins, með 10,9%.
Þegar aðeins var litið til stuðningsmanna Samfylkingarinnar treystu 26,3% Árna Páli best, 24,3% treystu Katrínu best og 17,1% Guðbjarti. Aðeins 8,1% stuðningsmanna Samfylkingarinnar treysta Degi B. best til að verða næsti formaður flokksins.
Viðskiptablaðið boðar nánari umfjöllun um könnunina á morgun.