Álfheiður Ingadóttir alþingismaður hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali Vinstri Grænna fyrir þingkosningarnar í vor en það fer fram 24. nóvember n.k. Hún leitar eftir stuðningi í 2. sæti.
Álfheiður var kosin á þing vorið 2007. „Eftir að VG og Samfylking tóku við stjórnartaumum í kjölfar hrunsins hafa mér verið falin fjölbreytt og krefjandi verkefni. Ég er nú formaður þingflokks VG og varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins þar sem nýja stjórnarskráin er efst á dagskrá. Þá á ég sæti í umhverfis- og samgöngunefnd og í forsætisnefnd þingsins. Á síðasta þingi var ég formaður velferðarnefndar og formaður viðskiptanefndar 2009 og 2011. Ég hef átt sæti í mörgum öðrum nefndum þingsins og var heilbrigðisráðherra 2009 -2010. Þá er ég fulltrúi í umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs og var um tíma formaður flokkahóps vinstri grænna sósíalista í ráðinu.
Ég hef þannig fengið tækifæri til vinna fyrir málstað okkar Vinstri grænna á þingi og í ríkisstjórn og hef öðlast dýrmæta reynslu og þekkingu sem ég tel að geti nýst vel á næsta kjörtímabili.
Það var vissulega erfitt að þurfa að taka til eftir hrunið, skera niður og þrengja að góðum verkefnum. En árangurinn er ótvíræður og mun betri en flestir þorðu að vona. Það er því full ástæða til að horfa bjartsýn fram á veginn.
Uppgjörinu við nýfrjálshyggjuna er hins vegar ekki lokið og til þess að árangurinn af störfum ríkisstjórnarinnar skili sér til frambúðar í réttlátari skiptingu þjóðartekna og auknum jöfnuði þurfa vinstri menn að vera við stjórnvölinn í a.m.k. 4 ár í viðbót. Þess vegna eru kosningarnar í vor svo mikilvægar,“ segir í fréttatilkynningu frá Álfheiði.