Líst vel á tvöfalt kjördæmisþing

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, telur að tvöfalt kjördæmisþing sé langskynsamlegasta leiðin til þess að ákveða framboðslista framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi. Aðferðin hafi verið notuð oft áður í þessu kjördæmi og gefið góða raun.

Sigmundur segir að með tvöföldu kjördæmisþingi komi nokkur hundruð flokksmanna saman og raði upp sigurstranglegum lista og fari út af fundinum sem eitt lið. „Upp á framhaldið að gera, samstöðu innbyrðis og út á við held ég að þetta sé mjög skynsamleg leið.“

Sigmundur er bjartsýnn á að ná efsta sæti listans á kjördæmisþinginu enda hefði hann ekki flutt sig um kjördæmi annars. Hann væri að fara aftur til upprunans því að upphaflega hefði öflugur hópur úr Norðausturkjördæmi stutt sig til formannskjörs í Framsóknarflokknum árið 2009 og viljað að hann fylgdi því eftir með því að bjóða sig fram í kjördæminu. Þá hefði hann hins vegar litið svo á að það þyrfti að byggja upp í Reykjavík.

Sigmundur segist vera ánægður með stöðu flokksins í höfuðborginni. „Staðan í Reykjavík er með besta móti, oft höfum við þurft að keppa fram á lokadaga kosningabaráttu til að ná inn mönnum en núna mælumst við nokkuð sterk í Reykjavík. Við stefnum á að ná tveimur þingmönnum í hvoru kjördæmi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka