Teitur Atlason í framboð fyrir Samfylkinguna

Teitur Atlason.
Teitur Atlason.

Teitur Atlason gefur kost á sér í fjórða til fimmta sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík í prófkjöri flokksins sem fram fer dagana 16. og 17. nóvember.

 „Teitur hefur fest sig í sessi sem einn vinsælasti bloggari landsins og heldur úti bloggsíðu á DV.is þar sem hann fjallar um þjóðfélagsmál með gagnrýnum hætti,“ segir í tilkynningu.

 Teitur hefur unnið við smíðar og ýmis verkamannastörf, komið við í blaðamennsku og starfaði í söludeild EJS. Hann er giftur og þriggja barna faðir.

 Teitur telur að endurreisn landsins verði að haldast í hendur við þéttingu öryggisnetsins, réttláta skiptingu sameiginlegra auðlinda og jöfn tækifæri fyrir alla Íslendinga.  „Þetta er hefðbundin jafnaðarmannastefna og hefur verið ástunduð með góðum árangri á Norðurlöndum og í Evrópu um áratuga skeið. 

Fyrirmyndirnar eru þar – ekki í frjálshyggjutilraunum Bretlands og Bandaríkjanna sem hálf heimsbyggðin er nú að súpa seyðið af. Teitur minnir á nauðsyn þess að efla hinar stjórnmálalegu tengingar við systurflokkana á Norðurlöndunum og þétta hinn hugmyndafræðilega grunn réttlætis og mannvirðingar sem sameinar okkur. Teitur mun beita sér fyrir bættri stjórnmálamenningu, hann vill auka breiddina í íslenskum stjórnmálum með því að fleiri en atvinnustjórnmálamenn gefi kost á sér, og telur að þingmenn eigi ekki að sitja lengur en 2 kjörtímabil.  Hann er þeirrar skoðunar að ljúka eigi aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og að þjóðin sjálf eigi lokaorðið í þjóðaratkvæðagreiðslu, og mun stuðla að framgangi jafnaðarstefnunnar í orði og á borði,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert