Ögmundur: VG þarf að endurstilla stefnuna

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Ákvörðun Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur um að segja skilið við stjórnmálin á að verða tilefni til að staldra við; tilefni til endurmats á vinnubrögðum og áherslum,“ skrifar Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra í pistli á heimasíðu sinni.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir hefur gefið út tilkynningu um að hún muni ekki gefa kost á sér í komandi Alþingiskosningum.

„Það er mikil eftirsjá að Guðfríðu Lilju úr stjórnmálum. Hún hefur reynst staðföst baráttukona fyrir þeim hugsjónum og gildum sem Vinstrihreyfingin grænt framboð er reist á og þeim loforðum sem flokkurinn hefur jafnan gefið fyrir kosningar.

Í yfirlýsingu Guðfríðar Lilju kemur fram þakklæti í garð samherja sem settu traust sitt á hana en þar er jafnframt að finna fyrir gagnrýni sem ég tel að VG eigi að taka til sín og reyndar allir stjórnmálaflokkar á þingi,“ skrifar Ögmundur.

Í yfirlýsingu Guðfríðar Lilju sagði m.a.: „Við gerðum okkur mörg hver vonir um nýja og breytta tíma en því er ekki að leyna að þar hefur margt valdið vonbrigðum.“

Ögmundur segir að enginn þurfi að velkjast í vafa um hvert Guðfríður Lilja er hér að fara. „Niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu, hve langt hefur þar verið gengið og annars staðar innan velferðarþjónustunnar, eignarhald á vatni og öðrum náttúruauðlindum, Magma Energy, hverning taka skyldi á skuldavanda heimilanna að ógleymdu Icesave og ESB, eru allt dæmi um mál sem leiddu til átaka, svo einstrengingslegra og óbilgjarnra á stundum, meðal annars í hennar garð, að mig grunar að hér sé komin skýringin á því að hún telur vera forgangsatriði stjórnmálanna að losna úr viðjum „einstefnumenningar hrunsins".

Ögmundur segist taka undir með Guðfríði Lilju, þessari einstefnumenningu verði að linna. 

„Vinstrihreyfingin grænt framboð þarf að endurstilla stefnuna eftir að hafa einbeitt sér að því að ausa bátinn í hartnær fjögur ár,“ segir í pistli Ögmundar.

Lesa pistil Ögmundar í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert