Sigur Hönnu Birnu veikir stöðu Bjarna

Hanna Birna og Illugu skoða tölur frá prófkjörinu í gær.
Hanna Birna og Illugu skoða tölur frá prófkjörinu í gær. mbl.is/Golli

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir helst mega lesa tvennt út úr niðurstöðum prófkjörs sjálfstæðismanna í Reykjavík. „Annars vegar er krafa um endurnýjun hávær og úrslitin endurspegla það. Svo má ekki horfa framhjá því að Hanna Birna er sterkur leiðtogi og hefur haft mjög mikið persónufylgi í skoðanakönnunum,“ segir Stefanía. „Góð úrslit Brynjars Níelssonar endurspegla sömuleiðis kröfuna um endurnýjun. Brynjar hefur lítið sem ekkert tekið þátt í stjórnmálum þótt hann hafi verið skeleggur talsmaður ýmissa sjónarmiða í gegnum tíðina,“ segir Stefanía.

„Úrslitin í Reykjavík og Kraganum sýna líka að eftirspurn er eftir fólki sem fylgir sínum eigin áttavita og segir það sem þeim raunverulega finnst,“ bætir hún við. „Ég myndi segja að það ætti til dæmis við um Vilhjálm Bjarnason í Kraganum, Brynjar Níelsson og Pétur Blöndal en sá síðastnefndi fær mjög góða kosningu,“ segir Stefanía en Vilhjálmur lenti í 4. sæti í prófkjörinu í suðvesturkjördæmi, Brynjar í 4. sæti í Reykjavík og Pétur Blöndal í 3. sæti í Reykjavík.

„Þeir þingmenn sem settu markið hátt fengu ekki alveg það sem þeir óskuðu sér,“ segir Stefanía. „Samt sem áður held ég að Illugi Gunnarsson megi vel við una enda mun hann leiða annað hvort kjördæmið,“ bætir hún við.

Þreytt á að biðjast afsökunar á forystumönnum

Aðspurð hver bíði mestan ósigur segir hún það líklegast vera Guðlaug Þór Þórðarson. „Birgir Ármannsson sóttist eftir hærra sæti en hann fékk, en hann er á svipuðum stað og hann hefur áður verið. Það er einna helst Guðlaugur Þór sem verður fyrir vonbrigðum, en hann dettur talsvert niður milli prófkjöra. Menn detta þó gjarnan niður um sæti þegar slagurinn er harður,“ segir Stefanía. 

„Mikill vilji er til að snúa við blaðinu og fólk er orðið þreytt á að þurfa að biðjast afsökunar á forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sí og æ,“ segir Stefanía.  

Konur verma 5 af 10 efstu sætunum hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík. „Hanna Birna massar fyrsta sætið, svo fær Sigríður Andersen svipað fylgi í prófkjörinu nú og síðast. Síðast var Erla Ósk Ásgeirsdóttir næst inn og þar næst Sigríður,“ segir Stefanía.

Hún segir þátttöku í prófkjörinu hafa verið nokkuð góða, en gild atkvæði voru 7.322 talsins. „Þátttakan í ár var alveg þokkaleg, margir höfðu nefnt að 8.000 atkvæði væri mjög gott viðmið en þetta hlýtur að teljast ágæt þátttaka,“ segir hún.

Styrkir stöðu Hönnu Birnu gegn Bjarna

„Áhugavert er að velta þessum úrslitum fyrir sér út frá stöðu formannsins, og í því prófkjöri tóku rúmlega 5.000 manns þátt, en það var næst stærsta prófkjörið í þessari hrinu, þar hlaut Bjarni um 54% atkvæða í 1. sæti. Ég myndi segja að úrslitin í Reykjavík og Kraganum gerðu lítið til að styrkja Bjarna Benediktsson í sessi,“ segir Stefanía. 

Hún segir stöðu Bjarna sem formanns flokksins hafa veikst. „Enn er talsverð vantrú ríkjandi gagnvart honum, að hann sé einfaldlega ekki réttur maður á réttum stað.“

Aðspurð hvort hún telji úrslitin styrkja stöðu Hönnu Birnu gagnvart Bjarna segir Stefanía svo vera. „Þó maður hafi ekki heyrt hana segja neitt um sín áform er ljóst að fólk veltir þessu fyrir sér. Margir hafa viljað stilla henni upp sem varaformannsefni í stað Ólafar Nordal en færi svo að hún gæfi kost á sér og nyti til þess stuðnings Bjarna, ólíkt því sem hún gerði á síðasta landsfundi þegar hún bauð sig fram gegn honum, þá myndi það styrkja Bjarna mjög ef hún segðist telja að hann væri rétti maðurinn í formannshlutverkið, en mér finnst ekki beint líklegt að það gerist,“ segir Stefanía.

„Ég tel líklegra að fólk muni þrýsta á hana að fara aftur gegn Bjarna og mögulega láta reyna á að Bjarni dragi sig í hlé sjálfur þannig að það verði ekki formannskosning. Þetta er engu að síður ákveðin áhætta fyrir Hönnu Birnu, eins og alla sem bjóða sig fram, því staða stjórnmálamanna veikist við tap,“ segir Stefanía. 

„Varðandi formannskosningu þá er hæpið að ætla að fara gegn formanni sem er forsætisráðherra eða ráðherra. Slíkt er nærri óþekkt í stjórnmálaflokkum á Íslandi,“ segir Stefanía. 

Miðað við úrslit fyrri ára að árinu 2009 undanskildu þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn getað verið nokkuð öruggur með þessa 8 þingmenn, þó að auðvitað sé ekkert öruggt í pólitíkinni og ekkert hægt að segja til um hvort fyrri staða flokksins verði endurheimt í næstu kosningum,“ segir Stefanía að lokum.

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur telur ólíklegt að Hanna Birna muni bjóða …
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur telur ólíklegt að Hanna Birna muni bjóða sig fram sem varaformannsefni Sjálfstæðisflokksins.
Að mati Stefaníu er líklegt að þrýst verði á Hönnu …
Að mati Stefaníu er líklegt að þrýst verði á Hönnu Birnu að fara aftur gegn Bjarna Benediktssyni í formannslag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka