Árni Páll: Mikilvægt að ein regla gildi

Árni Páll Árnason vill leiða Samfylkinguna.
Árni Páll Árnason vill leiða Samfylkinguna. mbl.is/Eggert

Árni Páll Árnason, sem býður sig fram til formanns Samfylkingarinnar, segist hafa fundið fyrir ótta hjá fólki um hvaða reglur muni gilda vegna formannskjörsins. Hann segir mikilvægt að ein regla gildi um skilyrði kosningaréttar í öllum félögum um allt land.

Þetta kemur fram í færslu sem Árni Páll skrifaði á facebook-síðu sína í kvöld.

„Ég hef fundið fyrir ótta hjá fólki um hvaða reglur muni gilda vegna formannskjörs.
Það er mikilvægt að ein regla gildi um skilyrði kosningaréttar í öllum félögum um allt land. Allsherjaratkvæðagreiðsla um formann á að vera lýðræðisveisla í boði Samfylkingarinnar, sem öllum landsmönnum býðst að taka þátt í ef þeir skrá sig í flokksfélag. Allir félagar í flokknum hljóta því líka að geta tekið þátt,“ skrifar Árni Páll.

„Sjálfstraust Samfylkingarinnar birtist í því að þora að vera opinn flokkur. Við erum lýðræðisleg fjöldahreyfing og bjóðum öllum að hafa áhrif. Það greinir okkur frá öðrum flokkum. Þannig skulum við hafa það áfram,“ segir hann ennfremur.

Framboðsfrestur til formanns Samfylkingarinnar rennur út nk. föstudag kl. 12.00, að því er segir á vef Samfylkingarinnar.

Nýr formaður Samfylkingarinnar verður kosinn í rafrænni allsherjaratkvæðagreiðslu allra skráðra félaga dagana 18. janúar til kl. 18.00 þann 28. janúar. Atkvæðisrétt hafa allir skráðir félagar í Samfylkingunni sem eru skráðir í flokkinn í síðasta lagi föstudaginn 11. janúar 2013 kl. 18.00.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert