Stjórnmálaflokkurinn Dögun mun bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi alþingiskosningum og er vinna við framboðslistana hafin. Fram kemur í tilkynningu að allir frambjóðendur verði að lýsa yfir stuðningi við stefnu Dögunar en framboðslistar verða væntanlega kynntir í febrúar.
Fram kemur í tilkynningunni, að nú þegar séu 2.275 einstaklingar víðs vegar af landinu í Dögun.
„Kjarnastefna Dögunar var samþykkt á stofnfundi 18. mars 2012. Í henni felast öflugar aðgerðir í þágu heimila, s.s. afnám verðtryggingar á neytendalánum (húsnæðislán þar með talin) og almenn leiðrétting húsnæðislána, breyting á skipan auðlindamála og uppstokkun á stjórn fiskveiða auk nýrrar stjórnarskrár að forskrift stjórnlagaráðs sem kjósendur hafa samþykkt. Kjarnastefna Dögunar er á slóðinni http://www.xdogun.is/kjarnastefnur,“ segir í tilkynningunni.
„Dögun mun bjóða fram í öllum kjördæmum og er vinna við framboðslistana hafin. Meðal þeirra sem formlega hafa gefið kost á sér eru tveir fulltrúar úr stjórnlagaráði, þeir Gísli Tryggvason og Lýður Árnason, tveir fyrrv. formenn Hagsmunasamtaka heimilanna, þau Andrea J. Ólafsdóttir og Þórður B. Sigurðsson, og tveir sitjandi þingmenn, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, auk Ragnars Þ. Ingólfssonar stjórnarmanns í VR. Allir frambjóðendur verða að lýsa yfir stuðningi við stefnu Dögunar en framboðslistar verða væntanlega kynntir í febrúar,“ segir ennfremur.
Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður, er á meðal þeirra sem hefur gengið til liðs við Dögun. Í stefnu Dögunar segir m.a., að það eigi að afnema verðtryggingu á neytendalánum tafarlaust og farið verði í almenna leiðréttingu húsnæðislána. Kristinn hefur aftur á móti sagt að það verði að virða alla gerða verðtryggða samninga.