Sjö af níu stjórnarmönnum Samstöðu — flokks lýðræðis og velferðar hafa sagt sig frá öllum trúnaðarstöfum fyrir flokkinn ásamt því að segja sig úr flokknum. Formaður flokksins er á meðal þeirra. Þau segja að ástæðan sé eindreginn vilji Lilju Mósesdóttur um að Samstaða bjóði ekki fram í næstu alþingiskosningum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjömenningunum. Hún er svohljóðandi:
„Við undirrituð, sjö af níu stjórnarmönnum Samstöðu flokks lýðræðis og velferðar höfum ákveðið að segja okkur frá öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn ásamt því að segja okkur úr flokknum. Ástæða þess er eindreginn vilji Lilju Mósesdóttur að Samstaða bjóði ekki fram í næstu alþingiskosningum og að leggja skuli Samstöðu niður sem stjórnmálaflokk ásamt samstarfsörðuleikum sem komið hafa upp í kjölfarið.
Það er mikið og vandasamt verk að bjóða kjósendum upp á nýjan valkost og það er því miður ekki líklegt að slíkt takist ef framboð til kosninga mætir andstöðu innan eigin raða. Innan Samstöðu eru margir einstaklingar sem þrá raunverulegar lausnir fyrir heimilin í landinu, einstaklingar sem eru tilbúnir að leggja sín lóð á vogaskálarnar í þeirri baráttu. Það er okkar von að sem fyrst muni koma fram nýr og skýr valkostur sem gefur heimilum landsins von. Von um breytingar. Þá von sem við vildum gefa með Samstöðu.
Þessi aðgerð er ekki uppgjöf heldur hvatning til okkar allra sem viljum berjast áfram fyrir heimilin í landinu að fylkja liði, snúa bökum saman. Þetta er ekki barátta um framtíð flokka. Þetta er barátta um framtíð þjóðar.“
Undir tilkynninguna skrifa þau:
Birgir Örn Guðmundsson Formaður
Sigurbjörn Svavarsson Varaformaður
Pálmey Helga Gísladóttir Varaformaður
Guðrún Indriðadóttir Gjaldkeri
Vilhjálmur Bjarnason
Þollý Rósmundsdóttir
Axel Þór Kolbeinsson