Fleiri kjósa Hönnu Birnu

Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tók afstöðu í viðhorfskönnun sem Capacent Gallup vann um leiðtoga Sjálfstæðisflokksins telur að Hanna Birna Kristjánsdóttir yrði sterkari formaður flokksins heldur en Bjarni Benediktsson, sem er núverandi formaður.

Alls sögðu 82,4% að Hanna Birna yrði sterkari. 9,4% sögðu að Bjarni yrði sterkari en 8,2% að þau yrðu jafn sterk.

Capacent kannaði viðhorf almennings til Hönnu Birnu og Bjarna sem formanna Sjálfstæðisflokksins fyrir Samtök áhugafólks um stjórnmál dagana 31. janúar til 6. febrúar sl. Ekki hefur fengist upp gefið hverjir standa á bak við samtökin.

Þrjár spurningar voru bornar fram í netkönnuninni. Í þeirri fyrstu var spurt: „Hvort telur þú líklegra að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn í næstu alþingiskosningum ef Hanna Birna Kristjánsdóttir er formaður flokksins eða Bjarni Benediktsson?“

Þeir sem tóku ekki afstöðu til þess hvaða flokk þeir myndu kjósa ef kosningar til Alþingis færu fram í dag voru spurðir þessarar spurningar. Rétt rúmur helmingur, eða 55%, taldi að þeir myndu vera líklegri að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna væri formaður. Tvö prósent sögðu að það væri líklegra ef Bjarni væri formaður en 43% sögðu að það væri jafn líklegt/ólíklegt óháð því hvort þeirra væri formaður. Alls tók 251 afstöðu til spurningarinnar.

Önnur spurningin hljóðar svo: „Er líklegra eða ólíklegra að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn ef Hanna Birna Kristjánsdóttir væri formaður flokksins?“

Alls sögðu 19,5% að það væri mjög líklegt, 16,5% að það væri nokkuð líklegt, 47,3% sögðu hvorki né, 3,7% sögðu að það væri nokkuð ólíklegt og loks sögðu 13% svarenda að það væri mjög ólíklegt. Alls svöruðu 290 manns spurningunni.

Þriðja spurningin í könnuninni er svohljóðandi: „Hvort telur þú að Hanna Birna Kristjánsdóttir eða Bjarni Benediktsson yrði sterkari formaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn?“

Sem fyrr segir sögðust 82,4% telja Hönnu Birnu sterkari, 9,4% töldu Bjarna vera sterkari en 8,2% að þau væru jafn sterk. Alls svöruðu 630 spurningunni.

Úrtakið var 1.400 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri. Þeir voru handahófsvaldir úr Viðhorfshópi Capacent Gallup. Fjöldi svarenda var 812 og var svarhlutfallið 58%.

Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka