Fleiri kjósa Hönnu Birnu

Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Yf­ir­gnæf­andi meiri­hluti þeirra sem tók af­stöðu í viðhorfs­könn­un sem Capacent Gallup vann um leiðtoga Sjálf­stæðis­flokks­ins tel­ur að Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir yrði sterk­ari formaður flokks­ins held­ur en Bjarni Bene­dikts­son, sem er nú­ver­andi formaður.

Alls sögðu 82,4% að Hanna Birna yrði sterk­ari. 9,4% sögðu að Bjarni yrði sterk­ari en 8,2% að þau yrðu jafn sterk.

Capacent kannaði viðhorf al­menn­ings til Hönnu Birnu og Bjarna sem formanna Sjálf­stæðis­flokks­ins fyr­ir Sam­tök áhuga­fólks um stjórn­mál dag­ana 31. janú­ar til 6. fe­brú­ar sl. Ekki hef­ur feng­ist upp gefið hverj­ir standa á bak við sam­tök­in.

Þrjár spurn­ing­ar voru born­ar fram í net­könn­un­inni. Í þeirri fyrstu var spurt: „Hvort tel­ur þú lík­legra að þú kjós­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn í næstu alþing­is­kosn­ing­um ef Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir er formaður flokks­ins eða Bjarni Bene­dikts­son?“

Þeir sem tóku ekki af­stöðu til þess hvaða flokk þeir myndu kjósa ef kosn­ing­ar til Alþing­is færu fram í dag voru spurðir þess­ar­ar spurn­ing­ar. Rétt rúm­ur helm­ing­ur, eða 55%, taldi að þeir myndu vera lík­legri að kjósa Sjálf­stæðis­flokk­inn ef Hanna Birna væri formaður. Tvö pró­sent sögðu að það væri lík­legra ef Bjarni væri formaður en 43% sögðu að það væri jafn lík­legt/​ólík­legt óháð því hvort þeirra væri formaður. Alls tók 251 af­stöðu til spurn­ing­ar­inn­ar.

Önnur spurn­ing­in hljóðar svo: „Er lík­legra eða ólík­legra að þú kjós­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn ef Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir væri formaður flokks­ins?“

Alls sögðu 19,5% að það væri mjög lík­legt, 16,5% að það væri nokkuð lík­legt, 47,3% sögðu hvorki né, 3,7% sögðu að það væri nokkuð ólík­legt og loks sögðu 13% svar­enda að það væri mjög ólík­legt. Alls svöruðu 290 manns spurn­ing­unni.

Þriðja spurn­ing­in í könn­un­inni er svohljóðandi: „Hvort tel­ur þú að Hanna Birna Kristjáns­dótt­ir eða Bjarni Bene­dikts­son yrði sterk­ari formaður fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn?“

Sem fyrr seg­ir sögðust 82,4% telja Hönnu Birnu sterk­ari, 9,4% töldu Bjarna vera sterk­ari en 8,2% að þau væru jafn sterk. Alls svöruðu 630 spurn­ing­unni.

Úrtakið var 1.400 manns á öllu land­inu, 18 ára og eldri. Þeir voru handa­hófs­vald­ir úr Viðhorfs­hópi Capacent Gallup. Fjöldi svar­enda var 812 og var svar­hlut­fallið 58%.

Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Bene­dikts­son er formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins. mbl.is/Ó​mar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert