Stórt mál sem þarf að ræða

Valgerður Bjarnadóttir er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
Valgerður Bjarnadóttir er formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Styrmir Kári

Engin niðurstaða lá fyrir að loknum fundi sem þingflokkur Samfylkingarinnar átti í dag um stjórnarskrárfrumvarpið. „Þetta er stórt mál og við þurfum að ræða þetta aftur á bak og áfram,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunarnefndar alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar.

Fundurinn hófst kl. 16 í dag og lauk honum á sjöunda tímanum í kvöld. Hún segir í samtali við mbl.is að það hafi ekki staðið til að komast að einhverri ákveðinni niðurstöðu á fundinum, sem hafi verið vinnufundur.

Aðspurð segir Valgerður að þingmennirnir hafi m.a. rætt um það hvort ákveðnir hlutar frumvarpsins verði geymdir og teknir fyrir á næsta þingi. „Það var rætt hvort það væri möguleiki. [...] En við komumst ekki að niðurstöðu; ekki endanlegri,“ segir hún.

„Það er ljóst að við erum með þetta núna inni í umræðu þinginu sem á margan hátt er mjög fróðlegt,“ segir Valgerður í samtali við mbl.is.

Valgerður segir að sér hafi þótt fróðlegt að heyra þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins koma fram á þinginu í dag með efnislegar athugasemdir í garð frumvarpsins, m.a. varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur, „sem ég hef aldrei heyrt frá Sjálfstæðisflokknum fyrr“. Valgerður bætir við að það sé gott að fá fram þessar athugasemdir.

„Mér finnst mjög ánægjulegt að fólk sé farið að ræða efni þess sem við erum að fást við.“

Þá bendir hún á að Framsóknarflokkurinn hafi sömuleiðis borið fram atriði sem flokkurinn segist vilja fá breytt. „Mér finnst það líka fróðlegt að fá það svona skýrt fram,“ segir hún.

„Við [þingflokkur Samfylkingarinnar] þurftum að ræða málin í ljósi þess sem hefur komið fram núna, þegar við höfum náð þessu inn í aðra umræðu,“ segir Valgerður.

Spurð út í næstu skref segir Valgerður að unnið verði í málinu alla helgina. Á mánudag muni stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd koma saman. „Þá á ég von á því að við tökum fyrir þetta álit Feneyjanefndarinnar,“ segir Valgerður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert