„Hvergi nærri hættur í pólitík“

Steingrímur J. Sigfússon tilkynnir að hann sækist ekki eftir endurkjöri …
Steingrímur J. Sigfússon tilkynnir að hann sækist ekki eftir endurkjöri sem formaður VG. mbl.is/Golli

„Ég er hvergi nærri hætt­ur í póli­tík,“ sagði Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, frá­far­andi formaður Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs, á blaðamanna­fundi í dag, en hann hyggst ekki sækj­ast eft­ir áfram­hald­andi for­mennsku á lands­fundi VG um næstu helgi. Hann fái með því móti frjáls­ari hend­ur til að sinna þeim mál­um sem hann hef­ur mest­an áhuga á sem og kjör­dæmi sínu.

Stein­grím­ur viður­kenndi að það geti verið vanda­samt hlut­verk að láta af for­mennsku og halda áfram í stjórn­mál­um. „Það er nóg af for­dæm­um og vít­um til að var­ast,“ sagði hann og bætti við að hann muni ekki flækj­ast fyr­ir nýrri for­ystu flokks­ins. 

Þá sagði hann ákvörðun­ina ekki tekna til að bregðast við fylg­istapi flokks­ins að und­an­förnu, hann væri sann­færður um að VG fengi meira fylgi en sést hefði í könn­un­um. Þetta væru hins veg­ar góð tíma­mót fyr­ir sig og flokk­inn til að end­ur­nýja for­yst­una. 

„Ég hef sem formaður ann­ars stjórn­ar­flokks­ins lagt alla orku mína í það verk­efni og er stolt­ur af þeim ótví­ræða ár­angri sem náðst hef­ur, við for­dæma­laust erfiðar aðstæður. Vissu­lega er glím­unni við af­leiðing­ar hruns­ins hvergi nærri lokið og mörg krefj­andi verk­efni bíða kom­andi kjör­tíma­bils. Ísland er þó vel á vegi statt og all­ir veg­ir fær­ir borið sam­an við þau ósköp sem við blöstu í árs­lok 2008 og byrj­un árs 2009,“ sagði Stein­grím­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert