„Hvergi nærri hættur í pólitík“

Steingrímur J. Sigfússon tilkynnir að hann sækist ekki eftir endurkjöri …
Steingrímur J. Sigfússon tilkynnir að hann sækist ekki eftir endurkjöri sem formaður VG. mbl.is/Golli

„Ég er hvergi nærri hættur í pólitík,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á blaðamannafundi í dag, en hann hyggst ekki sækjast eftir áframhaldandi formennsku á landsfundi VG um næstu helgi. Hann fái með því móti frjálsari hendur til að sinna þeim málum sem hann hefur mestan áhuga á sem og kjördæmi sínu.

Steingrímur viðurkenndi að það geti verið vandasamt hlutverk að láta af formennsku og halda áfram í stjórnmálum. „Það er nóg af fordæmum og vítum til að varast,“ sagði hann og bætti við að hann muni ekki flækjast fyrir nýrri forystu flokksins. 

Þá sagði hann ákvörðunina ekki tekna til að bregðast við fylgistapi flokksins að undanförnu, hann væri sannfærður um að VG fengi meira fylgi en sést hefði í könnunum. Þetta væru hins vegar góð tímamót fyrir sig og flokkinn til að endurnýja forystuna. 

„Ég hef sem formaður annars stjórnarflokksins lagt alla orku mína í það verkefni og er stoltur af þeim ótvíræða árangri sem náðst hefur, við fordæmalaust erfiðar aðstæður. Vissulega er glímunni við afleiðingar hrunsins hvergi nærri lokið og mörg krefjandi verkefni bíða komandi kjörtímabils. Ísland er þó vel á vegi statt og allir vegir færir borið saman við þau ósköp sem við blöstu í árslok 2008 og byrjun árs 2009,“ sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka