Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hyggst hvorki bjóða sig fram til formanns í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði né varaformanns. Hún segist styðja Katrínu Jakobsdóttur, sem tilkynnti framboð sitt fyrr í dag, heilshugar.
Í samtali við mbl.is sagði Svandís að Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi formaður VG, hefði hringt í sig um hádegisbil í gær og greint frá því að hann hygðist ekki bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í flokknum. Eins og komið hefur fram hélt Steingrímur svo blaðamannafund þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína.
Ákvörðun Steingríms var hins vegar ekki rædd á þingflokksfundi Vinstri-grænna á föstudag.
Svandís segir að Katrín njóti mikils trausts innan flokksins og hafi alla burði til þess að sameina hann sem formaður. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, tekur undir þetta. Hún ætlar ekki að bjóða sig fram til formanns en gefur ekkert upp um hvort hún bjóði sig fram til varaformanns.
Katrín Jakobsdóttir sagðist í samtali við mbl.is fyrr í dag allt eins von eiga á mótframboði. „Það kæmi mér ekkert á óvart. Það er stuttur tími fram að landsfundi, en það geta allir boðið sig fram.“ Hún sagði mjög miklu máli skipta að flokksmenn næðu að þjappa sér saman. „Ég held líka að stefna okkar eigi mikið erindi. Við erum búin að leggja mikla vinnu í það að undanförnu að móta okkar stefnu sem við ætlum að kynna á landsfundinum. Ég hef trú á því að þetta eigi eitthvað eftir að glæðast.“