„Það sem skiptir mjög miklu máli er að við náum að þjappa okkur saman,“ segir Katrín Jakobsdóttir, sem í dag tilkynnti að hún ætlaði að bjóða sig fram til formanns VG á landsfundi sem fram fer um næstu helgi.
Katrín segir að verði hún kjörin formaður muni ásýnd flokksins breytast, en hún reiknar ekki með stefnubreytingum. „Við Steingrímur erum ólíkir einstaklingar, en við erum búin að vinna saman mjög lengi. Vinstrihreyfingin - grænt framboð byggir á sínum hugsjónum og ég reikna ekki með áherslubreytingum í stefnu flokksins.“
Vinstrihreyfingin hefur mælst mjög lágt í skoðanakönnunum að undanförnu, en þær benda til þess að flokkurinn sé aðeins með um þriðjung af því fylgi sem hann hafði í síðustu kosningum. Katrín var spurð hvort hún væri ekki að taka við erfiðu verkefni ef hún nær kjöri sem formaður.
„Það er rétt að við erum í erfiðri stöðu ef við horfum á þær skoðanakannanir sem hafa verið að birtast. Ég hef hins vegar tilfinningu fyrir því að það sé mikill hugur í flokksfélögum mínum sem ég hef heyrt í og þá var ég ekki að tala við þá í sambandi við mitt framboð, heldur í sambandi við undirbúning kosninga. Það er hugur í fólki og ég held að það séu því mikil tækifæri framundan fyrir flokkinn. Það sem skiptir mjög miklu máli er að við náum að þjappa okkur saman. Ég held líka að stefna okkar eigi mikið erindi. Við erum búin að leggja mikla vinnu í það að undanförnu að móta okkar stefnu sem við ætlum að kynna á landsfundinum. Ég hef trú á því að þetta eigi eitthvað eftir að glæðast.“
Katrín sagðist ekki reikna með að þingmenn sem hefðu yfirgefið flokkinn á kjörtímabilinu sneru aftur í þingflokkinn þó að flokkurinn kysi sér nýja forystu. „Það sem skiptir máli er að við náum að virkja hvert annað í þeirri baráttu sem er framundan. Það er stóra viðfangsefnið.“
Katrín sagðist allt eins eiga von á mótframboði. „Það kæmi mér ekkert á óvart. Það er stuttur tími fram að landsfundi, en það geta allir boðið sig fram.“