„Alls óvíst hvar sú vegferð endar“

„Ég tjái mig að sjálfsögðu ekki um það. Það er alveg rétt og kom fram um helgina að það eru í vændum tvö frumvörp sem tengjast þessari mögulegu uppbyggingu þarna fyrir norðan og þegar þau koma þá skýra þau sig sjálf,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, spurður út í ummæli Guðmundar Harðar Guðmundssonar, formanns Landverndar, í blogg-færslu hans frá því fyrr í dag.

Þar heldur Guðmundur Hörður því fram að ráðherrann hafi „látið að kröfum sveitarstjórnarmanna á Húsavík um að almenningur greiði fyrir uppbyggingu stóriðju á Bakka.“

Steingrímur segist ekki hafa séð blogg-færsluna og hann geti þar að leiðandi ekki tjáð sig um hana en segir að sama skapi að blogg-færslan byggi „á einhverju sem hann [Guðmundur Hörður] hefur ekki séð,“ eftir að blaðmaður las hluta pistilsins fyrir ráðherrann í kvöld.

Guðmundur Hörður segir það litlu skipta hversu grænar ríkisstjórnir séu við völd þegar litið sé til opinberra ívilnana til stóriðjuuppbyggingar.

„Taka aftur upp ríkismeðgjöf með stóriðjuhöfnum“

Svo segir hann: „Hitt er öllu alvarlegra, þ.e. að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna hafi tekið þá stefnumarkandi ákvörðun að taka aftur upp ríkismeðgjöf með stóriðjuhöfnum, en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks aflagði þann ósið með breytingum á hafnalögum árið 2003. Eftir þær breytingar hafa notendur nýrra hafna staðið undir kostnaði við þær með hafnagjöldum.“

Guðmundur Hörður heldur áfram í blogg-pistli sínum og segir: „Ætli ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna sér að taka aftur uppi beina ríkisstyrki til stóriðju með þessum hætti þá er alls óvíst hvar sú vegferð endar.“

Segir sömu reglur hljóta að gilda í Suðurkjördæmi og NA-kjördæmi

Hann bendir á að þingmenn stjórnarandstöðu hafi lagt fram frumvarp á Alþingi um að fé renni úr almannasjóðum til stóriðjuhafnar í Helguvík og spyr: „Varla getur ríkisstjórnin neitað að styrkja Helguvíkurhöfn ef hún setur fordæmi um ríkisstyrk á Bakka? Það hljóta að gilda sömu reglur í Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert