Hæstaréttarlögmenn skora á Alþingi

mbl.isÓmar

Ellefu hæstaréttarlögmenn skora á þingmenn að fara hægt í stjórnarskrármálinu en þeir telja varhugavert að gera þær  grundvallarbreytingar  á stjórnskipun ríkisins sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

„Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Alþingi fer með vald stjórnarskrárgjafans, en við það vandasama verkefni verður að huga rækilega að nokkrum atriðum. Mikilvægt er að hafa hugfast að við gerð stjórnarskrár á ekki og má ekki tjalda til einnar nætur. Lausung í stjórnarfari hefur ávallt hættu í för með sér. Þrír þættir eru sérlega mikilvægir: Vönduð vinnubrögð, þekking hins vísasta fólks verði nýtt og breytingar gerðar í eins mikilli og almennri sátt og mögulegt er.
 
Samþykkt núverandi frumvarps, með þeim breytingartillögum sem fyrir liggja, hefði í för með sér mjög róttækar breytingar á íslenskri stjórnskipun. Ekki hefur farið fram ýtarleg greining á mögulegum afleiðingum þess að frumvarpið verði samþykkt. Sú takmarkaða skoðun sem farið hefur fram bendir eindregið til þess að í frumvarpinu felist margvíslegar hættur fyrir lýðræðislegt  þjóðskipulag.
 
Við, undirritaðir hæstaréttarlögmenn, teljum varhugavert að gera þær  grundvallarbreytingar  á stjórnskipun ríkisins sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
 
Til þess að Alþingi rísi undir stjórnskipulegu hlutverki sínu er þinginu skylt að taka sjálfstæða afstöðu til frumvarpsins. Tryggja verður vandaðan undirbúning og breiða samstöðu áður en  ný stjórnarskrá lýðveldisins er samþykkt. Töluvert vantar á að þessi skilyrði séu uppfyllt.  Skorum við á þingmenn að vanda betur til undirbúnings,“ segir í áskoruninni en undir hana rita þau Berglind Svavarsdóttir, Björgvin Þorsteinsson, Jakob R. Möller, Karl Axelsson, Kristinn Hallgrímsson, Ragnar H. Hall, Reimar Pétursson, Sigurður G. Guðjónsson, Þorsteinn Einarsson, Þórdís Bjarnadóttir og Þórunn Guðmundsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert