Telja afnám verðtryggingar brýnt

Merki Dögunar - stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði.
Merki Dögunar - stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

Framkvæmdaráð og frambjóðendur Dögunar telja að svör framkvæmdastjórnar ESB um verðtryggingu lána undirstriki mikilvægi þess að stjórnmálamenn allra flokka taki höndum saman um afnám verðtryggingar og leiðréttingu stökkbreyttra lána. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá flokknum.

Dögun, sem titla sig „stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði“, mun á næstu dögum kynna skipan efstu sæta á framboðslistum sínum í öllum kjördæmum. Í yfirlýsingunni segir að þeir frambjóðendur muni bera fram meginstefnumál flokksins um lýðræðisumbætur með nýrri stjórnarskrá, um afnám verðtryggingar og leiðréttingu lána og umbætur í fiskveiðistjórnunarmálum, auk víðtækari stefnumörkunar í efnahagsmálum og velferðarmálum.

„Í framvarðasveit Dögunar hefur valist fólk sem hefur barist fyrir réttlæti í þágu heimilanna árum saman og haft frumkvæði að því að rýna í íslensk lög og Evrópulöggjöf til að kanna hvort íslensk lánastarfsemi samrýmist lögum,“ segir í yfirlýsingu samtakanna.

„Liðsmenn Dögunar hafa ítrekað lagt fram á Alþingi og vettvangi Hagsmunasamtaka heimilanna tillögur þess efnis að afnema verðtryggingu og koma á nýju og öruggara húsnæðislánakerfi. Eitt brýnasta verkefni næstu mánaða er að rétta hlut þeirra sem hafa orðið undir skuldafargi og langvinnum afleiðingum hruns og verðbólgu.

Innleiðing beins lýðræðis ásamt margvíslegum umbótum sem stjórnarskrárfrumvarp felur í sér, gríðarlegur gjaldeyris- og efnahagsvandi auk tímabærra umbóta á sviði fiskveiðistjórnunar verðskulda að allir umbótasinnar snúi bökum saman og sameini krafta sína til að hemja sérhagsmuni og stöðva yfirgang fjármálaaflanna - í þjónustu við réttlætið og lýðræðið í þágu fólksins í landinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert